Varstu búin/n að gefa laxveiðisumarið upp á bátinn? Ekki gera það. Holl sem lauk þriggja daga veiði í Norðurá á hádegi í dag, landaði sjötíu löxum. Hollið á undan því, var með 51 lax.
Einn af þeim sem var að veiða í síðasta holli í Norðurá er Tryggvi Ársælsson. Hann og félagar hans lönduðu 24 löxum á tvær stangir. „Þetta var bara mjög skemmtilegt og fullt af fiski að ganga, sérstaklega í morgun. Við fengum lax í öllum stöðum sem við fórum á. Frá Laugakvörn og upp í Konungsstreng. Hann var líka miklu sýnilegri en síðustu daga og stökk mikið,“ sagði Tryggvi í samtali við Sporðaköst.
Hann hefur verið í þessu holli í fjölmörg ár og segir að þegar allt var eðlilegt hafi þetta holl 27. til 30. júní verið að skila 60 til 100 löxum.
„Við tókum líka eftir því að laxinn sem við vorum að veiða í gær var ekki lúsugur þó að hann hafi verið glænýr. Í morgun vorum við hins vegar að fá laxa með halalús. Einn félagi okkar fór yfir á brotinu í Laxfossi og fældi þar upp þrjá fiska sem voru að hvíla sig. Ég veit um einn sem veiddist í Skarðshamarsármótum og svo var Árni Friðleifs með einn ofan úr Poka, þannig að það er líka kominn fiskur fram á dal.“ sagði Tryggvi og var hinn kátasti með túrinn.
Ýmsir voru orðnir áhyggjufullir af lélegri veiði og göngur virtust vera af skornum skammti. Þessi staða í Norðurá ætti hins vegar að auka bjartsýni á stöðuna.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |