Stærsti lax tímabilsins til þessa

Þetta er túpan Ketill Máni sem gaf laxinn í Sandárbroti.
Þetta er túpan Ketill Máni sem gaf laxinn í Sandárbroti. Ljósmynd/NFJ

Stærsti lax sumarsins til þessa veiddist í Jöklu í morgun. Laxinn veiddist í á miðsvæði Jöklu í veiðistaðnum Sandárbroti. Það var Nils Folmer Jorgensen, stórlaxahvíslarinn, sem setti í og landaði þessum laxi.

Hann mældist 102 sentimetrar og er þriðji hundraðkallinn sem Sporðaköst vita um í sumar. Áður höfðu veiðst tveir laxar sem mældust 101 sentimetri og var það sama daginn í Laxá í Aðaldal og Eystri-Rangá.

Nils var að koma í fyrsta skipti í Jöklu síðan 2016. Áin hefur verið óveiðandi síðustu daga sökum leysinga og var hún algert kakó. Í gær veiddust fyrstu laxarnir, þegar sjatnaði loks í Jöklu. 

Nils með stórlaxinn úr Jöklu, sem hann veiddi í morgun, …
Nils með stórlaxinn úr Jöklu, sem hann veiddi í morgun, 102 sentimetrar á lengd og ummál 54. Ljósmynd/Aðsend

„Í morgun var skyggnið í henni orðið mun betra. Ég var að leita að fiski og sé skyndilega mjög stóran lax í Sandárbroti. Hann var bara einn og hann varð var við mig svo hann synti í burtu. Ég ákvað að bíða og settist niður í tíu mínútur og þá kom hann aftur á staðinn þar sem ég sá hann fyrst. Ég kastaði túpunni Katli Mána á hann og það var eins og þetta væri sýnt hægt. Hann synti í rólegheitum á eftir túpunni og ég sá að hann opnaði munninn og gleypti hana. Það var magnað að sjá þetta svona vel,“ sagði Nils í samtali við Sporðaköst.

Sandárbrot er um 35 kílómetra leið fyrir laxinn. Það vakti athygli Nils að fiskurinn var lúsugur en að sama skapi var hann þreyttur. Bardaginn var stuttur og telur Nils það stafa af því að fiskurinn hefur á mjög stuttum tíma gengið þetta mikla fljót. 

Ummál laxins var 54 sentimetrar. Þrír aðrir laxar hafa veiðst í Jöklu en Nils telur góðar horfur nú þegar vatn er sjatnandi.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert