Meira er farið að bera á hnúðlaxinum í veiðiám. Í morgun veiddist hnúðlaxahrygna í Norðurá í Borgarfirði. Veiðimaður sem sendi Sporðaköstum mynd af fiskinum var ekki ýkja hrifinn. Á nánast sama augnabliki lönduðu veiðimenn hnúðlaxi í Soginu fyrir landi Bíldsfells og var það hængur.
Áður hafði frést af hnúðlaxi úr Vatnsdalsá og sást til torfu af þessum nýbúa. Einnig fréttist af einum fiski í lítilli á fyrir austan.
Því hefur verið spáð að mikið gangi af hnúðlaxi í sumar og eru það ekki bara Íslendingar sem hafa áhyggjur af þessari þróun. Þannig birti breska ríkisútvarpið, BBC, frétt í morgun um að von væri á miklu magni af hnúðlaxi í breskar og skoskar ár í sumar og greindi frá því að hann væri þegar farinn að veiðast í Skotlandi.
Hafrannsóknastofnun hefur hvatt veiðimenn til að greina frá veiði á hnúðlaxi svo hægt sé að fylgjast með þróun mála. Eins og sést greinilega á myndinni af hnúðlaxinum í Norðurá er hann með doppur á sporðinum og er þannig auðgreindur frá öðrum tegundum, svo sem bleikju.
Árið 2017 veiddust nokkrir tugir hnúðlaxa í íslenskum ám. Mikil aukning varð svo árið 2019 þegar á þriðja hundrað slíkir voru skráðir. Hafrannsóknastofnun telur verulegar líkur á að þetta sumar verði enn stærra þegar kemur að hnúðlaxi. Lífsferill hans er tvö ár og staðfest hefur verið hrygning í nokkrum íslenskum ám og að sama skapi er mikið af flökkufiski sem kemur frá Rússlandi og Noregi á ferðinni og getur leitað upp í íslenskar ár í sumar.
Við hvetjum veiðimenn til að láta okkur vita ef þeir veiða slíka fiska.
Áfram berast fréttir af hnúðlöxum í afla veiðimanna. Sá þriðji sem við fáum mynd af í dag, veiddist í Eystri-Rangá og allt eru þetta fiskar veiddir í dag og er því greinilegt að hann er að mæta í íslensku árnar í bland við hefðbundna laxinn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |