Ótrúlegt magn af hnúðlaxi hefur gengið í margar laxveiðiár í Norður-Noregi síðustu daga og vikur. Norðmenn hafa af þessu miklar áhyggjur og tala um teppalagðar ár og umhverfisslys. Dæmi eru um að háfaðir hafi verið 3600 hnúðlaxar úr einni og sömu ánni á nokkrum dögum.
Fjöldi sjálfboðaliða vinnur nú hörðum höndum að því að fanga fiskinn og farga honum. Til þess eru notuð öll tiltæk ráð. Dregið er á með netum og laxastigum lokað og hnúðlaxinn háfaður upp úr þrepunum. Fjöldi myndbanda hefur verið birtur af þessum aðferðum, meðal annars á heimasíðu norska ríkissjónvarpsins NRK.
Forsvarsmenn í sveitarstjórnum, umhverfismálum og veiðifélögum hafa af þessu miklar áhyggjur. Eins og er heldur hnúðlaxinn sig mest í ám í Norður-Noregi en þeirra hefur líka orðið vart miklu sunnar og alveg inn í Oslóarfjörð. Talsmenn stangaveiðimanna segja þetta alvarlegasta hætta sem steðji nú að öllum norskum laxveiðiám og þetta mál snúist um að bjarga villta norska laxinum.
Opinberir aðilar hafa lýst því yfir að fjármagn verði fundið til að styðja við baráttuna gegn „rússalaxinum,“ eins og margir Norðmenn kalla hann.
Fyrst sást hnúðlaxinn í töluverðu mæli í norskum ám, árið 2017. Lífsferill hans er tvö ár og mikil aukning varð árið 2019 en árið í ár er fordæmalaust og hefur orðið alger sprenging í fjölda þessara fiska. Óttast er að toppurinn verði enn stærri árið 2023.
Hnúðlaxinn drepst eftir hrygningu og rotnar þá í ánni. Ekki er vitað hvaða áhrif það getur haft á aðrar tegundir ef mikið magn rotnandi fiska er í sama hylnum, en víst er að það er ekki fögur sjón.
Hér á landi hefur verið umtalsverð aukning í hnúðlaxi. Fyrst árið 2017, en þá veiddust nokkrir tugir af honum í íslenskum ám. Mikil aukning varð svo árið 2019 en þá voru skráðir um 230 hnúðlaxar, af veiðimönnum. Óttast er að árið í ár verði mun stærra hér á landi.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |