„Þetta er með hreinum ólíkindum og nánast óraunverulegt. Við erum hreinlega í sjokki,“ segir Kenneth Stalsett, formaður veiðinefndar Suður-Varangurshéraðs í Austur-Finnmörku í Noregi. Nefndin hans stjórnar og heldur utan um fjórar stórar laxveiðiár og einnig nokkrar minni.
„Tölurnar eru hræðilegar. Við sjáum í einni ánni að yfir sjö þúsund hnúðlaxar hafa gengið í hana síðustu daga og við ráðum ekki neitt við neitt. Samt vorum við undirbúnir með gildrur, mannskap og verkferla en þetta kom okkur í opna skjöldu.“
Kenneth segir að búið sé að loka þremur af þessum laxveiðiám, sem í dag ættu að vera að upplifa sinn besta tíma sumarsins. Hann segir ánum sjálflokað. „Við lokuðum þeim fyrir viku. Veiðileyfin seljast ekki og einhverra hluta vegna hefur mjög lítið gengið af atlantshafslaxinum. Við vitum hreinlega ekki hvaða áhrif þessi mikla innrás hnúðlaxins hefur. Kannski bíður laxinn fyrir utan eða veigrar sér við að ganga með þessu mikla magni af hnúðlaxi. Við bara vitum það ekki enn.“
Kenneth segir að flestar ár í Noregi séu að upplifa lélegt ár í laxi og ítrekar að menn viti ekki hvað sé að gerast. Hvort laxinn hinkri fyrir utan eða hvort eitthvert stórslys hafi orðið í lífríkinu. Hann segir menn eitt spurningarmerki.
Vitjað er um gildrurnar sem settar voru upp þrisvar á dag og er það meðal annars gert til að tryggja að silungur komist leiðar sinnar og einnig lax ef hann slæðist með. Hnúðlaxinn er hins vegar allur háfaður upp og hann drepinn.
Ef þú horfir til framtíðar, er hægt að verjast hnúðlaxinum?
„Nei. Það er því miður einfalda svarið. Þetta er staða sem við þurfum að aðlagast og finna lausnir. Við þurfum að endurhugsa baráttuna. Þurfum að verjast strax úti í sjó og einnig í ánum og finna tækni sem getur hjálpað okkur. Við þurfum líka að finna markað fyrir hnúðlaxinn. Núna eru sjálfboðaliðar að störfum en þetta er svo mikil vinna að fólkið okkar er orðið örmagna. Það eru samt fimm eða sex vikur þar til hnúðlaxinn hrygnir og þeim er enn að fjölga. Við verðum að finna leið til að fjármagna þá vinnu og þá með því að selja hnúðlaxinn. Við erum sjálfboðaliðar í dag af því að við erum sportveiðimenn og elskum að veiða. Ég óttast samt að þetta sé upphafið að endalokunum. Og sennilega byrjaði það árið 2017 en sprengingin í ár er svo svakaleg.“
Vart hefur orðið við hnúðlax í litlum ám og jafnvel lækjum sem ekki eru heimkynni laxins þannig að Kenneth segir þetta bardaga sem ekki sé hægt að vinna og ljóst að hnúðlaxinn hefur víða náð uggafestu, jafnvel á svæðum sem þeir viti ekki um.
Eina áin á svæðinu sem enn er opin fyrir veiðimenn er á sem er hluti af landamærum Noregs og Rússlands. Þar hefur ekki fengist heimild til að setja niður gildrur og annan búnað. „Við höldum henni opinni en vandamálið er að Rússar vilja hafa þennan fisk og veiða sér til matar. Við hins vegar erum sportveiðimenn og viljum vernda atlantshafslaxinn. Þarna er himinn og haf á milli okkar menningarheima hvað varðar veiðina.“
Stjórnmálamenn i Noregi hafa fram til þessa ekki haft mikinn áhuga á vandamálinu segir Kenneth, en nú þegar sífellt fleiri hnúðlaxar finnast sunnar í Noregi er þetta að breytast. „Umhverfis- og loftslagsráðherrann kom í heimsókn til okkar og sá með eigin augum hversu stórt vandamál þetta er. Það skiptir miklu að stjórnmálamenn átti sig á alvörunni. Það er ekki langt í stóru árnar eins og Alta, Lakselva og fleiri þar sem veiðin skiptir miklu máli og tekjur tengdar ferðamönnum á því sviði,“ segir Kenneth.
Hann hvetur veiðimenn bæði í Noregi og ekki síður á Íslandi til að skrá þessa fiska. „Í ánni Jakobselva lentum við í því að opinberar tölur árið 2017 voru átta hnúðlaxar. Auðvitað voru þeir fleiri en menn skráðu þá ekki og jafnvel þekktu þá ekki. Í sumar er talan komin í sjö þúsund og þeir eru enn að ganga af krafti,“ upplýsir hann.
Guðni Guðbergsson sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun óttast að mikil fjölgun geti orðið á Íslandi á þessum framandi gesti. Þá hefur stofnunin hvatt veiðimenn og veiðiréttarhafa til að upplýsa um og skrá þá fiska sem veiðast til að hægt sé að fylgjast með og rannsaka.
„Haldið vöku ykkar og skráið þetta. Þessi mikla innrás sem við erum að upplifa er hræðileg. Það vill enginn veiðimaður lengur kaupa veiðileyfi í þeim ám sem eru fullar af þessum fiski. Ég veit ekki hvernig þetta endar hjá okkur,“ sagði Kenneth að lokum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |