Vatnsleysi og sólfar dregur úr veiðinni

Rafn Valur með lax úr opnunarhollinu í Miðfirði. Þar eins …
Rafn Valur með lax úr opnunarhollinu í Miðfirði. Þar eins og svo víða annars staðar á svæðinu vantar vatn. Veðurspáin er hins vegar jákvæðari um helgina. Ljósmynd/Miðfjarðará

Sú einmuna blíða sem stór hluti landsmanna hefur notið er ekki sama fagnaðarefni hjá öllum. Laxveiðiárnar í Húnavatnssýslunum fara ekki varhluta af þessu og má segja að þetta sé þriðja veiðisumarið í röð þar sem aðstæður eru mjög krefjandi.

Sumarið 2019 var mikið þurrkasumar og lítið magn gekk af fiski í þessar ár, miðað við það sem menn eiga að venjast. Í fyrra lék Covid rekstraraðila grátt og fremur lítið var af laxi. Sumarið í ár er aftur þurrkasumar en laxinn virðist vera í meira magni á þessu svæði, þó að það endurspeglist ekki í veiðitölum, enn sem komið er.

Veiði í Blöndu hefur komið á óvart en þar er búið að vera mikið hark þó að veiðin hafi aðeins glæðst upp á síðkastið.

Þessi mældist 83 sentímetrar og veiddist í Harðeyrarstreng í Víðidal. …
Þessi mældist 83 sentímetrar og veiddist í Harðeyrarstreng í Víðidal. Veiðimaður er Rögnvaldur Guðmundsson. Það er meira af fiski í Víðidalnum en vantar bara vatn. Ljósmynd/ES

Laxá á Ásum er nálægt veiðitölum síðasta árs en veiðimenn síðustu daga hafa verið afar rólegir í veiðinni.

Vatnsdalsá er að upplifa einhverja lægstu vatnsstöðu sem þar hefur sést. Áin er að detta niður í fjóra rúmmetra samkvæmt mælinum við veiðistaðinn Nónhyl. Björn K. Rúnarsson, einn af leigutökum árinnar og staðarhaldari, segist aldrei hafa séð Vatnsdalsá svo vatnslitla. „Við erum að sjá eyrar sem standa upp úr í Flóðinu sem ég hef ekki séð fyrr, sagði Björn í samtali við Sporðaköst í dag. Hann hefur verið viðloðandi Vatnsdalinn í áratugi og segir þetta verri stöðu en þurrkasumarið mikla 2019.

„Það hefur töluvert mikið af laxi sést á silungasvæðinu og á neðri hluta árinnar. Hins vegar veigrar hann sér við að ganga í gegnum Flóðið. Í þessu mikla sólskini er áin að fara í átján til tuttugu gráður. Þó sáum við að fiskur er farinn að strauja fram og einn veiddist lúsugur í gljúfrunum í morgun. Maður er að vona að prime time sé að komast bara aftur á sinn gamla stað, en það var alltaf síðasta vika í júlí og fyrsta vika í ágúst.“

Björn K. Rúnarsson, leigutaki í Vatnsdal með nýgenginn lax. Hann …
Björn K. Rúnarsson, leigutaki í Vatnsdal með nýgenginn lax. Hann segist ekki hafa séð Vatnsdalsá svo lága í vatni áður. Ljósmynd/Aðsend

Björn segir að sett hafi verið í fimmtán laxa í morgun, en aðeins hafi fjórir komið á land. Allt var þetta neðan við Flóðið.

Víðidalsá hefur verið að glíma við sömu vandamál og systuráin í Vatnsdal. Áin er orðin mjög vatnslítil og að detta í það sem hún var í þurrkunum 2019. Hins vegar er meiri fiskur í henni en menn hafa séð undanfarin tvö sumur. Hverju það skilar þegar vatnsbúskapur lagast vita menn ekki en verður fróðlegt.

Miðfjarðará er sú á sem hefur verið með bestu veiðina af náttúrulegum laxveiðiám á Íslandi í mörg ár. Veiðin þar hefur verið að aukast upp á síðkastið en þó vantar töluvert upp á að hún nái sama magni og í fyrra. Rafn Valur Alfreðsson leigutaki segir að skilyrði séu afar krefjandi. „Við verðum bara að fá vatn. Þegar það mun loksins gerast getur alveg orðið veisla hér. Það er alveg komið töluvert af fiski en þegar er endalaust sólskin þá verður þetta erfitt. Morgunvaktirnar hafa verið að skila ágætis veiði. Núna tvo daga í röð hafa komið um tuttugu laxar að morgni en svo er erfitt að fá hann til að taka eftir hádegi þegar áin er orðin ótrúlega heit,“ sagði Rafn Valur í samtali við Sporðaköst.

Hann tekur undir þá kenningu eða væntingar um að besti tíminn, sem var alltaf í lok júlí og byrjun ágúst, kunni að vera að koma á nýjan leik.

Lítið hefur verið að frétta út Hrútafjarðará, en hún er orðin afar vatnslítil eins og aðrar ár á svæðinu. Samkvæmt tölum frá Landssambandi veiðifélaga á angling.is voru aðeins komnir átján laxar á land hinn 14. júlí. 

Góðu fréttirnar fyrir þetta svæði og þá veiðimenn sem eru að fara að veiða um helgina er að það spáir ekki bara kólnandi heldur líka rigningu. Vonandi verður þá veisla.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert