Veiðin í Laxá í Leirársveit er á góðu róli. Samanborið við veiðina í fyrra hefur hún skilað töluvert meiri veiði en á sama tíma 2020. Hún hefur nú gefið ríflega þrjú hundruð fiska og að sögn Ólafs Johnson leigutaka hafa verið góðar göngur í ána og laxinn er orðinn vel dreifður.
„Við erum með fínt vatn og það er gott magn af fiski. Þetta byrjaði rólega hjá okkur eins og flestum en við kennum bara köldu vori um og allt lífríkið var seinna á ferðinni,“ sagði Ólafur í samtali við Sporðaköst.
Síðasta stóra árið í Leirársveitinni var 2015 en þá fór veiðin yfir ellefu hundruð laxa. Hörmungaárið 2019 gaf hins vegar ekki nema 359 laxa. Það er því ljóst ef fram heldur sem horfir að Laxá gæti skilað góðri tölu þegar upp er staðið.
„Það er ekki langt síðan það var holl hjá okkur þar sem komu fimm maríulaxar og það var afskaplega ánægjulegt,“ sagði Ólafur. Fjöldi maríulaxa segir til um að margir byrjendur hafi verið í því holli og þá hjálpar til að mikið sé af laxi.
Staðan á Laxá í Leirársveit er í takt við það sem er að gerast í Laxá í Kjós, Leirvogsá og borgaránum Korpu og Elliðaám. Þessar ár eru ekki að fara að slá nein met en ágætis magn af laxi er komið í þær og veiðin fór hægar af stað en oft áður og vitna menn þar til vorsins sem var kalt og þurrt.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |