Fjórði laxinn, sem mælist hundrað sentimetrar eða meira, veiddist í Laxá í Aðaldal í morgun. Það var Magni Jónsson sem setti í stórlaxinn í Bjargstreng, neðan Æðarfossa. Naut hann leiðsagnar Vigfúsar Bjarna Jónssonar.
Sporðaköst hafa staðfestar upplýsingar um ellefu fiska í þessum stærðarflokki í sumar. Það er mun minna en á sama tíma í fyrra, þegar þeir voru orðnir tuttugu talsins.
„Við vorum ekkert að skyggna Bjargstrenginn,“ sagði Vigfús í samtali við Sporðaköst. „Við fórum bara beint niður og í þriðja kasti kom hann og tók Sunray.“
Þegar fiskur af þessari stærð tekur í Bjargstreng er það ávísun á ævintýri, Það varð enda raunin hjá þeim félögum. Fiskurinn tók strauið og fór undir göngubrúna.
„Þetta var sterkur fiskur. Til að byrja með lá hann rólegur í töluvert miklum straum í strengnum. Svo auðvitað tók hann strauið niður og undir litlu göngubrúna. Ég þurfti að fara á magann til að koma stönginni undir brúna. Eftir það rauk hann niður á Breiðu og við lönduðum honum þar eftir um það bil hálftíma viðureign,“ sagði Magni í samtali við Sporðaköst.
Þetta er ekki stærsti lax sem Magni hefur landað. Hann fékk 102 sentímetra lax í einmitt Laxá og var það í Suður-Hólma fyrir aldamót.
Magni er ánægður með stöðuna á Laxá. Fiskur er dreifður og frekar lítið slýrek miðað við árstíma.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |