Það sem af er sumri hefur veiðst 61 lax í Mýrarkvísl, sem fellur í Laxá í Aðaldal. Þessi tala vekur mikla athygli því hún er svo miklu hærri en síðustu ár á þessum tíma. Matthías Þór Hákonarson er með kvíslina á leigu og hann segir fisk víða og meira en hann hefur áður séð.
„Það hefur verið stöðug veiði og fiskur er að veiðast um alla á. Efsta svæðið hefur gefið sérstaklega vel og mest er þetta heilbrigður og flottur smálax frá sextíu til ríflega sjötíu sentímetrar. Stórlaxinn er ekki farinn að taka af neinum krafti og stærst höfum við fengið 93 semtímetra fisk,“ sagði kátur leigutakinn.
Matthías tók við Mýrarkvísl 2014 og besta árið hans til þessa er 2015. Þá var lokatala sumarsins 171 lax. Það sem vekur hins vegar nokkra undrun er að á þessum tíma það ár var aðeins kominn 21 lax á land, en ágúst og september eru alltaf bestu mánuðirnir í kvíslinni.
Árið 2019 gaf 166 laxa í Mýrarkvísl og hinn 9. ágúst það ár hafði 39 löxum verið landað. Síðasta ár var slakt í ánni og var lokatalan 84 laxar. Á þessum tíma í fyrra voru komnir fjórtán laxar.
Ef aðstæður haldast bara í meðallagi það sem eftir lifir veiðitímans má gera ráð fyrir að áin fari jafnvel yfir veiðina sem var 2015. Matthías segir þó að fari ekki að rigna á næstunni þá fari það að hafa áhrif fljótlega.
Hann var spurður hvort hann hefði einhverja skýringu á því að þetta ár byrjaði svona vel?
Matthías treysti sér ekki til að meta það en nefndi þó sem mögulega ástæðu að árið 2016 var byrjað að grafa hrogn á efsta svæði árinnar. „Síðasta holl var með tíu laxa og þar af voru sjö á efsta svæðinu. Kannski er þetta að skila sér, en það er erfitt að segja eitthvað ákveðið. Aðalatriðið er að þetta gengur vel og veiðimenn fara héðan ánægðir,“ sagði Matthías Þór.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |