Nýr leigutaki að Stóru-Laxá í Hreppum er með samning til tíu ára, að lágmarki, við stjórn veiðifélagsins. Það er Finnur B. Harðarson sem leiðir hópinn sem stendur að baki óstofnuðu hlutafélagi, sem tekur ána á leigu, frá og með næsta sumri.
Ljóst er að Finnur og félagar ætla í umtalverðar endurbætur og breytingar. Stefnt er að því að sameina þrjú neðstu svæðin í eina skiptingu, en svæði fjögur mun halda sér í því formi sem nú er.
„Það verða byggð tvö ný veiðihús. Endanleg staðsetning liggur ekki fyrir, enda þarf samþykki landeiganda. Við stefnum á að vera með sex stanga veiðihús fyrir svæðin þrjú og vonandi verður það hús byggt í Skarði. Við ætlum okkur að opna fyrir akstur frá Hreppunum og alveg inn að Sólheimum og þá verður nánast hægt að keyra hringinn á sveitavegi,“ sagði Finnur í samtali við Sporðaköst.
Seinna húsið verður væntanlega uppi í Laxárdal og hannað og byggt fyrir fjórar stangir. Hann vonast til þess að hægt verði að taka húsið á svæði fjögur í notkun næsta vor, en telur líklegt að húsið fyrir neðri svæðin geti verið tilbúið vorið 2023. „Þar er gert ráð fyrir fullri þjónustu við veiðimenn og einnig verðum við með leiðsögumenn.“
Uppi er orðrómur um að einungis eigi að selja leyfi til útlendinga?
Finnur hlær. „Það væri nú bara bölvuð vitleysa. Það eru allir Íslendingar velkomnir og þetta verkefni snýst ekki um að selja bara til útlendinga.“
Hann er landeigandi að Stóru-Laxá og hefur undanfarin ár verið að grafa upp læki og stuðla að náttúrulegri hrygningu í þeim. Hann segir að þetta verkefni líti spennandi út og lækurinn sé nú fullur af seiðum. Til stendur að gera þetta á fleiri stöðum. „Áður en ég byrjaði á þessu voru engin seiði í læknum en nú er þar urmull,“ sagði Finnur, sem er búinn að vera í þessu verkefni í fjögur ár.
„Stóra markmiðið með þessu er að hjálpa ánni enn meira enda tel ég hana mjög vanmetna. Við ætlum líka að tryggja að heildarupplifun veiðimanna verði eins og best verður á kosið,“ sagði Finnur að lokum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |