Hnúðlax hefur víða sett svip sinn á veiðisumarið. Í Vopnafirði hefur töluvert magn gengið í Hofsá og Selá. Sá fáheyrði atburður gerðist nýverið í Selá að veiðimaður sem þar var landaði tveimur fiskum í einu.
Vífill Gústafsson var að veiða Fossbreiðuna og setti fljótlega í lax á Sunray shadow. Ekki bjuggust menn við langri viðureign þar sem þetta var smálax. Eftir nokkra stund gerði Helgi leiðsögumaður sig kláran að háfa laxinn. Skyndilega var eins og smálaxinn gengi í endurnýjun lífdaga og aukinn kraftur hljóp í baráttuna. Það var svo eftir dágóðan tíma sem leikurinn barst á nýjan leik að háfnum.
Sér til mikillar undrunar sá Helgi leiðsögumaður að hnúðlax var nánast límdur upp við laxinn. Hann brá háfnum undir þá báða. Kom í ljós að hnúðlaxinn hafði líka tekið Sunrayinn. Tennurnar á hnúðlaxinum höfðu fests í hárunum á flottúbunni og höfðu því báðir tekið fluguna.
Í gærkvöldi var gripið til þess ráðs að fara með net í Stekkjarhyl í Selá eftir að veiðitíma lauk. Þar hefur veiðst töluvert af hnúðlaxi í sumar. Þrír slíkir komu í netið, en nokkurt magn af hnúðlaxi slapp undir netið.
Upphaflega stóð til að draga á valda veiðistaði í Vopnafjarðaránum, eftir veiðitímabilið en þeim áformum var breytt í ljósi þess að hnúðlaxinn hrygnir fyrr en Atlantshafslaxinn. Hnúðlaxinn heldur sig fyrst og fremst á hægum stöðum þar sem lítill straumur er og gjarnan á grunnu vatni.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |