Tungufljót í Vestur-Skaftafellssýslu er eitt af stóru nöfnunum í sjóbirtingsveiðinni fyrir austan. Nú er að renna upp besti tíminn í birtingnum, en veiðin fer rólega af stað. Veiðin í Eldvatni er enn róleg. Sömu sögu er að segja úr Vatnsá. Veiði hófst í Tungulæk á föstudag en byrjar rólega. Fyrsti fiskurinn þar veiddist á Breiðunni og mældist hann 78 sentímetrar. Þessi fyrsti birtingur í Tungulæk tók púpuna Beyki eftir Gylfa Kristjánsson.
Góðu fréttirnar eru þó þær að hann er mættur í Tungufljótið og var Kristján Páll Rafnsson leigutaki að veiða þar síðustu daga og landaði níu fiskum. Þar af voru tveir laxar, en hann sendi okkur mynd af tveimur hreint út sagt frábærum fiskum sem hann veiddi í túrnum.
„Það er svakalega lítið vatn í ánni og lítið af fiski gengið upp. Þó er fiskur í flestum stöðum, lax og birtingur. Mest er af honum í Syðri-Hólma og hann bíður þar eftir rigningu. Ég náði laxi í Búrhyl en restina var ég að veiða í Syðri-Hólma,“ sagði Kristján Páll í samtali við Sporðaköst.
Hann landaði stærst 76, 81 og 82 sentímetra birtingum og tóku þeir ýmsar straumflugur og Frances-kón.
Mönnum ber saman um það að nú vanti alvöru sunnlenskt slagveður og helst í nokkra daga til að birtingurinn vaði upp í þessar perlur. Hvenær það gerist er óljóst.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |