Síðasta kastið gaf stórlax á „Tvíburann“

Þór Agnarsson með stórlaxinn úr Brúnarhyl í Svartá. Við hlið …
Þór Agnarsson með stórlaxinn úr Brúnarhyl í Svartá. Við hlið hans er rennblautur Baldur Hermannsson sem hannaði fluguna sem gaf laxinn. Ljósmynd/Aðsend

Síðasta holl í Svartá landaði níu löxum og þar af var einn svakalegur hængur sem mældist 95 sentímetrar. Það er skemmtileg saga á bak við þennan næst stærsta fisk í Svartá í sumar, sem Þór Agnarsson veiddi.

„Þetta var alveg stórkostleg upplifun. Hann mældist 95. Ég var með Baldri Hermannssyni sem er höfundur Frigga. Hann var harður á því að við ættum að veiða á smáar flugur. Ég sagði svo í lokin að það væri bara ekki hægt að fara úr ánni án þess að prófa Frigga.“

Baldur lét þetta eftir Þór og rétti honum Tvíbura–Frigga. Þetta er útgáfa af Frigga sem er skírð í höfuðið á veiðitvíburunum Magnúsi og Gunnari sem gjarnan eru kenndir við Myndform eða Laugarásbíó. Þór lét ekki segja sér þetta tvisvar og skellti flugunni undir.

„Hann tók í fjórða kasti. Mjög róleg taka. En svo varð allt vitlaust. Hann rauk eina fimm hundruð metra niður ána og við Baldur hlupum á eftir honum og erum sem betur fer báðir í góðu formi,“ sagði afar kátur veiðimaður á heimleið úr Svartá.

„Það var mikið ævintýri að háfa þennan volduga hæng,“ sagði Baldur „Friggi“ Hermannsson í samtali við Sporðaköst, einnig á heimleið. „Við skulum orða það þannig að ég varð rennandi blautur. Ég ætlaði í tvígang að háfa hann en hann komst úr fyrir mig og ég tók „Krauna" á þetta og henti mér flötum,“ hló Baldur.

Hann vísar hér í leiðsögumanninn Björgvin Krauna Viðarsson í Laxá í Aðaldal, sem hefur að sögn Baldurs brugðið á þetta ráð þegar stórfiskur hringar þann sem er á háfnum.

„Að lokum hafðist þetta og og spennufallið var gríðarlegt,“ segir Þór og upplýsir að þetta er hans langstærsti fiskur til þessa. Hann segist vera silungsveiðimaður fram í fingurgóma en þessi er svo langtum stærri en hann hefur áður landað. Sporðaköst óska honum til hamingju með stórlaxinn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert