Krókódílatíminn í laxveiðinni er svo sannarlega genginn í garð. Þetta er tímabilið þar sem stóru hængarnir eru aftur orðnir árásargjarnir og taka þá gjarnan flugur veiðimanna. Tveir sannkallaðir krókódílar veiddust í Eystri-Rangá á föstudag og í dag.
„Já, það kom einn 100 sentímetra af Bátsvaði á föstudaginn. Það var Hilmar Ingimundarson sem veiddi hann á rauða Frances kón. Og í dag kom svo annar hundraðkall sem var sléttir hundrað líka. Hann veiddist á Hrafnaklettum, sem er veiðistaður rétt neðan við Hótel Rangá. Hannes Gústafsson veiddi hann og það var rauð Frances númer fjórtán sem fékk hann til að taka,“ sagði Jóhann Davíð Snorrason framkvæmdastjóri Kolskeggs í samtali við Sporðaköst. Kolskeggur annast sölu á veiðileyfum og sér um rekstur Eystri-Rangár og Þverár í Fljótshlíð og Affallsins.
Samtals eru komnir fimm laxar sem teljast hundraðkallar á svæðum Kolskeggs fyrir austan. Þrír hafa veiðst í Eystri-Rangá. Þessir tveir sem nú er sagt frá og í lok júní veiddist einn sem mældist 101 sentímetri. Í byrjun júlí veiddust svo tveir á eystri bakka Hólsár og Affallið gaf einn slíkan höfðingja þann 18. ágúst.
Veiðimenn í Eystri-Rangá hafa líka veitt marga níutíu plús fiska síðustu daga og ef að magnið er ekki til staðar, því oft hefur veiðst meira í Eystri, þá geta gæðin bætt það upp.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |