Það er eftirtektarvert hversu stórum og mjög stórum sjóbirtingum hefur fjölgað síðustu ár. Sérstaklega kemur þetta skýrt fram í þeim ám þar sem veiðifyrirkomulagið er veiða og sleppa. Ef við horfum fyrst á sjóbirtingsárnar í Meðallandi þá er Tungulækurinn ljóslifandi dæmi. Þar veiðast nú nánast á hverjum degi áttatíu sentímetra birtingar sem eru engir smá fiskar.
Í vor veiddist hundrað sentímetra langur sjóbirtingur í Tungulæknum en í haust er búið að landa 93 og 96 sentímetra fiskum. Báðir veiddust þeir á Breiðunni. Veiðimenn sem voru í læknum á föstudag lönduðu sjö birtingum. Þar af voru fimm áttatíu sentímetrar eða meira og einn af þeim mældist 91 sentímetri.
Eldvatn í Meðallandi átti mjög undir högg að sækja í byrjun aldarinnar en síðustu sex ár hefur verið sleppiskylda á sjóbirtingi. Það hefur skilað sér í verulegri aukningu í veiði og einnig er þessum fiskum í yfirstærð að fjölga. Síðasta föstudag veiddust 88 og 90 sentímetra sjóbirtingar í Eldvatninu.
Tungufljótið hefur einnig verið að gefa fleiri og fleiri birtinga sem eru stærri en áttatíu sentímetrar. Þar er einnig sleppiskylda á birtingi. Sjóbirtingur sem fær að lifa stækkar og getur gengið oft í ána til hrygningar. Þess vegna eru þeir afar verðmætir í kerfunum og veiðast stærri á næsta ári.
Svipaða sögu er að segja í Laxá í Kjós þar sem birtingurinn hefur farið stækkandi undanfarin ár.
Skýrasta dæmið er þó sennilega litla Leirá skammt frá Akranesi. Eftir að ráðist var þar í sleppiskyldu á fiski hefur birtingurinn dafnað vel og þar eru höfðingjar af áðurnefndri stærð farnir að veiðast, en sáust ekki fyrir nokkrum árum.
Sjóbirtingar sem ná þessari stærð, eru að hausti um og yfir tuttugu pund. Auðvitað fer það nokkuð eftir holdafari en ástand á fiskinum fyrir austan er gott og er hann að sama skapi þykkur.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |