„Tölurnar sýna að við munum tapa laxinum,“ sagði Dr. Peter S. Williams, stjórnandi alþjóðlegs málþings Six Rivers Project um framtíð laxastofnanna í Atlantshafi sem lauk í Reykjavík í dag, þegar hann tók saman helstu niðurstöður í framsögum vísndamanna sem tóku þátt. Williams bætti við að það væri heldur betur áskorun að nýtja þekkinguna sem við búum þegar yfir til að reyna að snúa þróuninni við til að laxinn endi ekki á válista og verði hreinlega útrýmt.
„Gögn vísindamanna sýna skýrlega fram á niðursveifluna í laxastofnunum og stefnan virðist vera í átt að útrýmingu. Ég er því svo sannarlega svartsýnn á stöðu laxastofnanna í Norður-Atlantshafi,“ sagði Sir Jim Ratcliffe eftir málþingið en hann er, sem kunnugt er, stærsti hluthafi Six Rivers Project sem áður var Veiðiklúbburinn Strengur.
Málþingið stóð í tvo daga og voru meðal annars með framsögu vísindamenn frá Íslandi, Bretlandi, Norðurlöndunum, Írlandi og Kanada. Fjölbreytilegar rannsóknir voru kynntar, á svo ólíkum sviðum sem seiðarannsóknum, uppbyggingu gróðurlendis á ársvæðum, verndaráætlunum laxastofna og genarannsóknum sem eiga að gefa gleggri mynd af göngu laxa í hafi. Og vandamálin sem blasa við laxastofnunum komu víða við sögu, til að mynda af völdum ofveiða, gríðarlegrar ásóknar hnúðlaxa í ár við Atlantshaf í sumar, og vegna laxa sem sleppa úr eldi og hrygna í ám.
Eins og Ratcliffe segir við blaðamann, þá var eitt meginstef umræðunnar það að Atlantshafslaxinn heyr varnarbaráttu í öllum löndum við norðanvert Atlantshaf og margt kom fram sem studdi það, þótt svörin við því hvað þurfi laxinum til bjargar séu ekki ljós.
Jim Ratcliffe segir erindi vísindamanna á málþinginu hafa staðfest þá vitneskju að með sama áframhaldi þá stefni laxinn í útrýmingu. „Margar aðrar dýrategundir á jörðinni eiga í sama vanda en á síðustu 40 til 50 árum hefur Atlantshafslaxinum líklega fækkað úr um 10 milljónum fiska niður í um 2,5 milljónir. Og ef við lítum enn lengra aftur þá voru stofnarnir enn sterkari.“
Ratcliffe bætir við að á málþinginu hafi verið sýnt fram á mikla hnignun laxastofnanna í skosku ánum og eins í ánum við Fundy-flóa við austurströnd Kanada. „Þar var áður mjög stór laxastofn með nánast jafn mikinn fjölda laxa og er í öllum íslensku ánum nú, um 45.000 laxa – en nú eru ekki eftir nema um 200 á Fundy-vatnasvæðinu. Við heyrum bara slæmar fréttir og mér finnst fátt breytast, laxinum heldur bara áfram að fækka þar til hann verður útdauður. Já, ég er svartsýnn á stöðu laxins,“ sagði Ratcliffe.
„Ef þróunini verður ekki snúið við þá mun hið óhjákvæmilega gerast – eftir 20 eða 40 ár – og við munum öll harma það. Því ef við mennirnir endum á því að byggja einir jörðina, eftir að hafa drepið allar helstu dýrategundirnar, þá verður það ömurleg tilvera,“ segir Ratcliffe.
„Eitt af því sem við heyrðum hér er að Atlantshafslaxinn er ein mest rannsakaða dýrategund jarðar, og við skiljum margt og vitum margt um laxinn, en höfum samt ekki náð að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir sem byggja á þekkingunni. Til einhvers sem eykur lífslíkur laxa. Það er gott að vinna að öllum þessum rannsóknum, og ég hvet til þeirra því aukin þekking er alltaf af hinu góða. En að lokum verður að taka þekkinguna og beita henni í aðgerðum sem skipta máli.“
Ratcliffe bendir á að laxinn eyði hálfum lífsferlinum í ánum og hinum helmingnum í hafi og þær aðgerðir sem ráðist er í verði annars vegar að tengjast uppvaxtarsvæðunum í ánum, og hins vegar aðstæðum í hafinu en líklega vitum við mun minna um það sem þar á sér stað en við ættum að gera en líklega er annaðhvort veitt þar of mikið af laxinum eða of mikið af því sem hann étur. Í ánum er helst hægt að kenna um breytingum á búsvæðum af mannavöldum, svo sem mengun, og svo mögulega ofveiði. Aðgerðirnar til útbóta verði að tengjast annað hvort vatnakerfunum eða veiðinni í hafinu.
„Þegar eru ákveðnar fisktegundir á listanum yfir dýr í útrýmingarhættu, eins og bláuggatúnfiskurinn sem er alfarið bannað að veiða í dag, og kannski þarf Atlantshafslaxinn að lenda á þeim lista til að eiga sér viðreisnar von. En það ætti að sleppa öllum veiddum laxi í öllum ám. Það er engin afsökun fyrir því að drepa laxa þegar stofninn er í útrýmingarhættu,“ segir hann.
Minkum álagið á laxinn
Þegar Jim Ratcliffe er spurður að því hvort stefnan við ár Six Rivers Project á Norðausturhorninu sé að sýna öðrum hvernig megi stuðla að góðri umgengni við veiðiár, þá segir hann þau sem að þeim ám standa ekki vera þá að sýna öðrum hvað hægt sé að gera heldur einfaldlega að sýna skynsemi.
„Við reynum að vera skynsöm og það virðist vera virka. Það sem við gerum til að mynda í Selá er engin geimvísindi. Við minkum álagið á laxinn, til að auðvelda honum lífið í ánni. Við veiðum bara á sex stangir og að meðaltali á annað þúsund laxa. Við getum borið það saman við Laxá í Aðaldal þar sem nú er veitt á 12 stangir en 19 undanfarin ár, og um fjögur hundruð laxar hafa veiðst í sumar – við höfum bara sex stangir og það dregur úr álagi. Veiðimen fá aðeins að veiða í fjóra tíma á morgnana og fjóra seinnipartinn, þeir fá ekki að veiða í tólf tíma á dag. Þeir mega bara landa tveimur löxum úr sama hyl, og mega ekki nota stóra króka eða þyngdar flugur. Það má ráðast í allskonar aðgerðir sem þessar til að reyna að draga úr streitu fiska í ánni, því laxinn þarf að vera í ánni í níu mánuði en á þeim tíma hrygnir hann og þarf svo að bíða af sér veturinn ef hann getur. Þetta eru því æði stressandi níu mánuðir í lífi laxins! Þá reynum við að bæta svæðin fyrir hrygningarfiska, til að mynda með því að byggja fiskvegi ef fossar eru fyrirstaða, og með því að taka laxa úr neðri hluta ánna og færa upp á efri svæði sem hann kemst ekki sjálfur á. Svo komum við líka hrognum úr löxum af neðri hluta árinnar fyrir í völdum þverám. Allt þetta snýst um að stækka hrygningarsvæðin og styrkja. Að lokum, og það kann að hljóma lítilvægt en mér finnst það hljóma skynsamlega: fæði fyrir seiðin sem eru í tvö eða þrjú ár í ánni er vitaskuld mikilvægt og það að planta gróðri, runnum og trjám, meðfram ánum og þveránum eykur fæðuna sem berst í árnar, til að mynda frá skordýrum af ýmsu tagi. Við plöntum 10.000 trjám á ári meðfram þveránum og reynum að hafa með því áhrif til góðs. Þetta eru allt praktísk atriði og við reynum vitaskuld að gæta þess að engin spilliefni eða efni frá búskap skolist út í ána, til að halda vatninu algjörlega hreinu.“
Ekki hægt að gera ekki neitt
Varðandi veiðistjórnun og laxastofna í lægð, finnst Ratcliffe þá rétt ef stofnar tiltekinna vatnasvæða sem þykja eiga erfitt, að yfirvöld geti þá tekið í taumana ef landeigendur gera það ekki og loka þeim meðan stofnarnir ná sér á strik? Eða stytt veiðitímann?
„Svo sannarlega,“ svarar hann. „Stjórnvöld geta ekki hunsað það sem á sér stað í slíkum tilvikum og ekki gert neitt. Við vitum nú hvað gerðist við Fundy-flóa í Kanada, þar voru 45 þúsund laxar og fækkaði niður í 200. Þar hefur verið laxlaust í mörg ár og það er mjög erfitt að koma stofninum af stað aftur. Þar tapast DNA upphaflegu stofnana. Ef við lítum til Laxár í Aðaldal þá er þar mesta stórlaxagen á Íslandi og ef stofn ársvæða, eins og þar, á í vanda þá er ekki hægt að sitja aðgerðarlaus hjá og gera ekki neitt. Það verður að vera hægt að nota allar rannsóknirnar. Hér verður að hafa gagn af sérfræðingum á Vatnasviði Hafrannsóknastofnunar, sem er kostuð af skattfé. Og það verður að bregðast við vandamálunum.
Gott dæmi um nauðsynlegar aðgerðir heyrðum við um frá Tana-ánni, sem er á landamærum Noregs og Finnlands. Þar koma tvær þjóðir að málum og báðar hafa veitt þetta mikla fljót með miklu veiðiálagi, með stöngum og netum, en síðustu ár hefur niðursveiflan verið svo djúp að nú hafa yfirvöld landanna sameinast um að stöðva veiði með öllu í ánni. Og hún er margfalt vatnsmeiri en Laxá í Aðaldal. Ef það er verulega slæmt ástand í einhverjum ám hér á landi þá er þekkingin til staðar og það þarf að mínu mati að nota hana til að bregðast við með raunhæfum hætti. Að halda að sér höndum hjálpar engum.
Vitaskuld eru árnar víðast hvað mikilvægur hluti af efnahag heimamanna á hverjum stað. En þegar eitthvað bjátar á í ánum og fiskunum fækkar, þá hefur verið reynt að bregðast við með því að fjölga stöngum. Sem gerir ástandið bara enn verra og eykur álagið á fiskinum. Þess í stað verður að fækka stöngum, hætta að nota stórar og þungar flugur, stytta veiðitímann, og gefa laxinum færi á að styrkja sig og snúa aftur. Þá eru gæðin í veiðinni strax orðin meiri, innkoma bænda líka meiri og það er mikilvægt. En að berja ána til bana gerir engum gott,“ segir Jim Ratcliffe.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |