Næst stærsti laxinn til þessa í sumar

Allt klárt fyrir háfun í Bergsnös. Rúnar Gauti með allt …
Allt klárt fyrir háfun í Bergsnös. Rúnar Gauti með allt í keng og Sævar klár á háfnum. Ljósmynd/Hermann Sigurðsson

Stóra-Laxá í Hreppum fór í 65 rúmmetra vatnsmagn í vikunni. Hún sjatnaði hratt og þá gerðust ævintýri. Nokkrir félagar sem voru þar við veiðar byrjuðu á að setja í og landa 96 sentímetra hrygnu úr Kálfhagahyl á svæði I og II. Það var glæsilegur fiskur. 

Rúnar Gauti Guðjónsson kom að Bergsnös við þessi skilyrði. Það er annálaður stórlaxastaður og stóð svo heldur betur undir væntingum. „Ég fékk töku og hún var ofurlítið skrítin. Bara tekið í og haldið fast við. Ég reisti stöngina eftir svona fimm sekúndur og það var bara áfram þetta þétta átak. Ég var farinn að halda að ég hefði fest í botni. En þá fór hann af stað,“ sagði Rúnar Gauti í samtali við Sporðaköst.

Rúnar Gauti með 104 sentímetra hænginn úr Bergsnös. Fimm vitni …
Rúnar Gauti með 104 sentímetra hænginn úr Bergsnös. Fimm vitni voru að mælingunni. Ljósmynd/Hermann Sigurðsson

Hann var með Kursk flugu undir, sem er afar þung enda vatnsmagnið enn mjög mikið. Rúnar segir að fiskurinn hafi engin læti verið með, bara þumbast og fór þangað sem hann vildi. „Ég var ekki við stjórn í þessari viðureign. Sem betur fer hélt hann sig bara í hylnum og þetta var einhver hálftími sem ég togaðist á við hann. Þetta var eins og væri bátur á hinum endanum,“ sagði Rúnar brosandi.

Á háfnum var Sævar Rúnarsson. „Ég var fyrstur til að sjá hann og þvílík skepna, þegar hann sneri í áttina til mína. Mér hálf brá. Veiðiugginn á honum var á stærð við kótelettu. Þetta var svakalegur fiskur,“ sagði Sævar en hann hafði nokkru áður landað 96 sentímetra hrygnunni sem nefnd var í upphafi.

Hér sést svo greinilega þvílík skepna þetta er. Rúnar telur …
Hér sést svo greinilega þvílík skepna þetta er. Rúnar telur að Víkingshúfan hafi fært sér heppni, jafnvel meistaraheppni. Ljósmynd/Hermann Sigurðsson

Þessi mikli höfðingi var þrímældur og stóð slétta 104 sentímetra. Rúnar var að vonum í skýjunum og benti blaðamanni á að hann væri með Víkingshúfu á myndunum. „Ætli þetta sé ekki einhver meistaraheppni,“ glotti hann.

Rúnar hefur veitt í átján ár í Laxá í Aðaldal og var þar meðal annars í læri hjá meistara Þórði Péturssyni. Fyrir nokkuð mörgum árum fékk hann 99 sentímetra fisk í Aðaldalnum og segist hann sannfærður um að sá fiskur stóð tuttugu pund. En eftir þá mælingu keypti hann sér háf með vigt í. Hængurinn tröllvaxni úr Bergsnös var enda vigtaður og vó ellefu kíló, eða 22 pund. Þetta er næst stærsti lax í sumar sem Sporðaköst hafa vitneskju um. Fnjóská gaf 105 sentímetra lax og tveir 104 hafa komið úr Haffjarðará og Laxá í Aðaldal.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert