Um helgina voru síðustu dagarnir í mörgum laxveiðiám fyrir norðan. Haustið lét loksins finna almennilega fyrir sér og var víða lokað í norðanbáli með tilheyrandi hitastigi. Þetta kom þó ekki í veg fyrir að veiðimenn gerðu víða góða hluti.
Eiður Pétursson formaður árnefndar Sandár í Þistilfirði sendi okkur pistil um síðustu dagana þar.
„Árnefnd Sandár lokaði ánni um helgina í norðan slagviðri. Við erfiðar aðstæður náðu árnefndarmenn þó að landa þremur löxum og gerði Hörður Birgir Hafsteinsson „Íslandsmeistarinn“ sér lítið fyrir og landaði stærsta laxi sumarsins í Sandá. 98.5 sentímetra hængur sem tók hina klassísku White wing númer 14 í Ólafshyl. Á háfnum og málbandinu var Baldur „Friggi“ Hermannsson. Var laxinn margmældur og gaf Baldur engan afslátt á því að þessi fiskur væri níutíu og átta komma fimm. Ekkert „cirka bát“ á þeim bænum þegar Frigginn skellir upp málbandinu.“
Alls gaf Sandá 173 laxa í sumar og er það mjög lítið á hennar mælikvarða en áin er þekkt fyrir miklar sveiflur milli ára. Sautján hnúðlaxar veiddust þar að auki og óvíst hvort það gladdi veiðimenn.
„Já þetta var erfitt ár eins og víðar á Norðaustur horninu. Þessar tæru ár þola illa svona „óveður“ eins og hér var í allt sumar. Laxinn í Sandá gekk allur upp í fosshyl neðan við Sandárfoss og þar stökk lax á nokkurra mínútna fresti í fossinn í margar vikur í sumar þannig að það má áætla að í hylnum hafi verið nánast allur laxinn í ánni,“ sagði Eiður. Hann sá þetta sama ástanda í Hafralónsá í sumar.
„Ég var í leiðsögn þar í lok júlí. Allur fiskurinn var genginn lengst inn á fjall og þar voru stórir laxar í djúpum dömmum til dæmis í Bláhyl númer 51. Þannig að stór hluti veiðimanna sem kemur í þessar ár við svona aðstæður finnur aldrei fiskinn. En það er erfitt að blóta þessu góða veðri, því nú er komin slydda fyrir norðan og þá vill maður frekar hafa almennilegt veður,“ sagði Eiður brosandi.
Veðrið var á svipuðum nótum í Víðidal, þar sem síðustu köstin voru tekin um helgina. Þrátt fyrir skítviðrið veiddi lokahollið mjög vel. Fiskur náðist í klak, eins og óskað hafði verið eftir og var síðasti laxinn, hvorki meira né minna en 101 sentímetra hrygna sem veiddist í Harðeyrarstreng. Þar var að verki Nils Folmer Jörgensen. Lokahollið gaf um fimmtíu laxa og skilar það Víðidalsá í 737 laxa sem er svipuð veiði og sumarið 2017 og mun betri en síðustu þrjú ár.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |