Það verður nóg af lesefni fyrir veiðimenn um jólin. Bókin Dagbók urriða er væntanleg í verslanir í lok nóvember. Höfundur er Ólafur Tómas Guðbjartsson og hefur hann fyrir nokkru skráð heitið Dagbók urriða kyrfilega í huga veiðimanna. Hann gerði eftirminnilega sjónvarpsþætti undir sama heiti og hefur gert hlaðvarpsþætti og fjöldann allan af færslum undir þessu sama nafni á samfélagsmiðlum. Við náðum tali af Ólafi eftir að hann vakti athygli á bókinni. Hvernig bók er þetta, fyrir utan að vera augljóslega veiðibók?
„Dagbók urriða er í raun veiðidagbókin mín síðastliðin þrjátíu ár. Í bókinni skrifa ég á gamansaman hátt um reynslu mína sem silungsveiðimaður, sigra og sorgir, mistök og lærdóm, ásamt því að kafa ofan í pælingar um hegðun fiska, náttúruna og lífríki hennar, sagnfræði, atferli veiðimanna ásamt öðru skemmtilegu og fræðandi efni. Ég lagði upp með að skrifa bók sem væri fyndin en í senn fræðandi. Bók sem hægt væri að flissa yfir upp í sófa um jólin,“ sagði rithöfundurinn í samtali við Sporðaköst.
Dagbók urriða kemur í verslanir í lok nóvember. Forlagið Salka gefur út bókina, enda annálaðar veiðikonur sem þar halda um stjórnartaumana og brenna fyrir sportið, eins og Ólafur Tómas orðar það.
„Ég ætla að vera duglegur að kynna bókina og setja saman viðburði fyrir veiðimenn til þess að hittast, spjalla og hafa gaman er nær dregur útgáfudegi,“ sagði rithöfundurinn.
Það verður nóg að lesa fyrir veiðimenn um jólin. Eins og komið hefur fram er bókin Gengið til rjúpna, eftir Dúa Landmark þegar komin í verslanir og jafnvel er von á fleiri bókum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |