Miklar breytingar við Jöklu í sumar

Þröstur Elliðason með stórlax úr Jöklu. Nú verður ánni og …
Þröstur Elliðason með stórlax úr Jöklu. Nú verður ánni og hliðarám skipt upp í tvö svæði. Þar eru menn að byggja á þeirri reynslu sem fengist hefur síðustu ár. Ljósmynd/Strengir

Breytingar eru fyrirhugaðar á svæðaskiptingu og aðstöðu fyrir veiðimenn við Jöklu í sumar. Ánni og hliðarám verður skipt upp í tvö svæði. Efra svæðið sem fær einfaldlega nafnið Jökla nær frá veiðistaðnum Skipalág og upp að Tregluhyl sem er um áttatíu kílómetra frá sjó. Þá fylgir einnig með svæðinu öll Kaldá og Laxá í Jökulsárhlíð. Óski menn eftir því að veiða enn ofar verður það heimilt í samráði við veiðivörð. Sex til átta stangir verða seldar á efra svæðinu í sumar.

Neðra svæðið heitir nú Jökla og Fögruhlíðará og tekur við að efra svæðinu, neðan við Skipalág í Jöklu. Með svæðinu fylgja Kaldárós og Fögruhlíðará með ósnum þar. Þrjár stangir verða á neðra svæðinu. Óhætt er að segja að fjölbreyttir kostir séu þarna í boði. Jökla sjálf hefur að geyma mikið af laxi og í Kaldárósnum er oft góð veiðivon, þar sem lax og bleikja stoppa þar gjarnan í nokkurn tíma áður en fiskurinn gengur upp ána. Fögruhlíðará er geymir einnig lax, en kannski þekktust fyrir skemmtilega sjóbleikjuveiði í ósnum. Þessi neðsti hluti Jöklu hefur ekki verið stundaður mikið en þar mun mönnum gefast tækifæri til að skoða nýja og lítt þekkta staði.

Jöklu og hliðarám verður í sumar skipt upp í tvö …
Jöklu og hliðarám verður í sumar skipt upp í tvö svæði. Þetta er gert af fenginni reynslu upplýsir Þröstur Elliðason. Enn eru margir veiðistaðir lítt kannaðir og einhverjir jafnvel óþekktir. Ljósmynd/Mokveiðifélagið

Þegar kemur fram yfir miðjan ágúst verða svæðin tvö sameinuð og seld sem ein heild, en þá verða leyfðar fjórar til sex stangir á öllu svæðinu.

„Við erum að gera þessar breytingar í ljósi reynslunnar á svæðinu. Jökla er mjög löng og enn er eftir að kanna marga staði. Við erum að búa til eitt stórt aðalsvæði í Jöklu og með því að tryggja betri upplifun fyrir veiðimenn,“ sagði Þröstur Elliðason í samtali við Sporðaköst.

Hann bendir líka á að aðstaða fyrir veiðimenn verður bætt og færð á einn og sama stað þannig að möguleikar á þjónustu stóraukast. Gisting og fullt fæði verður fyrir Jöklusvæðið og verður veiðihúsið Hálsakot við Kaldá veiðiheimili fyrir svæðið. Þá verður einnig í boði gisting fyrir neðra svæðið, Jöklu og Fögruhlíðará, í nýju húsi við Hálsakot, sem verður tilbúið fyrir sumarið. Þar munu veiðimenn geta verið í sjálfsmennsku eða keypt fæði samhliða gistingu.

„Þetta er ákveðið lærdómsferli þegar ný og mjög löng laxveiðiá kemur upp í hendurnar á okkur. Þessar breytingar taka mið af þeirri reynslu sem við höfum aflað undanfarin ár og það er líka mjög ánægjulegt að geta núna boðið upp á góða aðstöðu fyrir neðra svæðið sem Fögruhlíðará fylgir.“ Þröstur telur að Jökla eigi ennþá mikið inni og vonast eftir að fá góðar aðstæður í sumar þannig að Jökla muni gefa þá veiði sem hann hefur trú á að áin geti skilað.

Frá því að veiði hófst í Jöklu árið 2010 hefur áin í tvígang farið yfir átta hundruð laxa. Það var sumarið 2015 sem gaf 815 laxa og metveiði var sumarið 2020 þegar 860 laxar voru bókaðir á svæðinu. Í fyrra gaf Jökla 540 laxa. Stærsti áhrifavaldur í veiðinni í Jöklu er Hálslón. Þegar lónið fyllist að hausti þá fer yfirfallið í Jöklu og hún breytist úr tærri bergvatnsá í Jökulfljót. Misjafnt er milli ára hvenær þetta gerist. Að meðaltali er talað um seint í ágúst en tíðarfar á hálendinu ræður þar för.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert