Veiðifélagið Fish Partner er farið að selja veiðileyfi í Fossálana sem renna í Vatnamót, skammt austan við Klaustur. Fossálar eru einstaklega falleg veiðiá og í fyrsta skipti sem almenningi stendur til boða að kaupa veiðileyfi í þetta svæði í heild sinni. Áður var Stangaveiðifélag Keflavíkur með hluta svæðisins á leigu. Nú hafa þeir Fish Partner-menn samið um veiðirétt á öllu svæðinu.
Veitt er á þrjár stangir, sem er í raun sami fjöldi stanga og stóð veiðimönnum til boða áður fyrr en þá aðeins á hluta þess svæðis sem nú verður í boði. Efri hluti vatnasvæðisins er Þverá og síðar Öðulbrúará. Svæðið þar efra er einstaklega fallegt og segir í tilkynningu frá Fish Partner að hluti svæðisins sé á skrá UNESCO yfir náttúruperlur.
Fyrst og fremst er um að ræða sjóbirting á svæðinu en einnig er staðbundin bleikja í Þverárvatni. En einmitt þetta efra svæði hefur fram til þessa ekki verið í boði fyrir almenning heldur eingöngu verið nýtt af landeigendum.
Kristján Páll Rafnsson forsvarsmaður Fish Partner segist mjög spenntur yfir þessari nýjung. „Já. Ég hef veitt þarna upp frá og fegurðin er mikil. Ég var þarna á ferðinni seint í haust og varð þá vitni að ástarleikjum sjóbirtinga víða. Við erum með alls konar hugmyndir um svæðið í heild. Við erum með Vatnamótin á leigu og það gæti verið spennandi upplifun og fjölbreytt fyrir veiðimenn að prófa einhvers konar skiptingu milli svæða. Það kemur í ljós síðar og þá hvernig það gæti litið út,“ sagði Kristján Páll í samtali við Sporðaköst.
Samningur Fish Partner við landeigendur gerir það að verkum að öll áin er í boði fyrir veiðimenn og munu þessar þrjár stangir því hafa nægilegt rými og gott betur en það. Öllum fiski verður sleppt á svæðinu með tilkomu Fish Partner. Þá verður tekin upp sú regla að eingöngu er veitt á flugu.
Stefnt er að því að gera upp húsakost á bænum Þverá sem stendur við ána. Þær framkvæmdir klárast ekki fyrir vorveiðina þannig að veiðimenn munu gista á Hörgslandi sem er skammt frá.
Nú verður sama fyrirkomulag tekið upp í Vatnamótunum, það er að sleppa öllum fiski. Það er því ljóst að fleiri birtingar munu rata upp í Fossála. Þau sjóbirtingssvæði þar sem tekið hefur verið upp veiða/sleppa hafa fljótt skilað árangri. Birtingurinn gengur oft á hrygningarstöðvar. Þetta hefur sést svo greinilega í Eldvatni, Tungufljóti, Leirá, Laxá í Kjós og víðar. Birtingar fara stækkandi og þeim fjölgar.
Fish Partner eru orðnir langstærstu seljendur silungsleyfa. Þeir hafa nýlega tekið Vatnamótin á leigu. Þá eru þeir með víðfeðmt úrval af silungsleyfum víða um land.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |