Fish Partner tekur Fossála á leigu

Fossálar er skemmtileg sjóbirtingsá skammt austan við Kirkjubæjarklaustur. Eitt af …
Fossálar er skemmtileg sjóbirtingsá skammt austan við Kirkjubæjarklaustur. Eitt af þekktustu kennileitum við ána er Orrustuhól. Nú opnast stærra svæði á þessum slóðum fyrir veiðimenn. Ljósmynd/Fish Partner

Veiðifélagið Fish Partner er farið að selja veiðileyfi í Fossálana sem renna í Vatnamót, skammt austan við Klaustur. Fossálar eru einstaklega falleg veiðiá og í fyrsta skipti sem almenningi stendur til boða að kaupa veiðileyfi í þetta svæði í heild sinni. Áður var Stangaveiðifélag Keflavíkur með hluta svæðisins á leigu. Nú hafa þeir Fish Partner-menn samið um veiðirétt á öllu svæðinu.

Veitt er á þrjár stangir, sem er í raun sami fjöldi stanga og stóð veiðimönnum til boða áður fyrr en þá aðeins á hluta þess svæðis sem nú verður í boði. Efri hluti vatnasvæðisins er Þverá og síðar Öðulbrúará. Svæðið þar efra er einstaklega fallegt og segir í tilkynningu frá Fish Partner að hluti svæðisins sé á skrá UNESCO yfir náttúruperlur.

Fyrst og fremst er um að ræða sjóbirting á svæðinu en einnig er staðbundin bleikja í Þverárvatni. En einmitt þetta efra svæði hefur fram til þessa ekki verið í boði fyrir almenning heldur eingöngu verið nýtt af landeigendum.

Bæði vor og haustveiði er stunduð í Fossálum. Nú er …
Bæði vor og haustveiði er stunduð í Fossálum. Nú er tekin upp alger sleppiskylda á fiski og eingöngu leyft að veiða á flugu. Ljósmynd/Fish Partner

Kristján Páll Rafnsson forsvarsmaður Fish Partner segist mjög spenntur yfir þessari nýjung. „Já. Ég hef veitt þarna upp frá og fegurðin er mikil. Ég var þarna á ferðinni seint í haust og varð þá vitni að ástarleikjum sjóbirtinga víða. Við erum með alls konar hugmyndir um svæðið í heild. Við erum með Vatnamótin á leigu og það gæti verið spennandi upplifun og fjölbreytt fyrir veiðimenn að prófa einhvers konar skiptingu milli svæða. Það kemur í ljós síðar og þá hvernig það gæti litið út,“ sagði Kristján Páll í samtali við Sporðaköst.

Samningur Fish Partner við landeigendur gerir það að verkum að öll áin er í boði fyrir veiðimenn og munu þessar þrjár stangir því hafa nægilegt rými og gott betur en það. Öllum fiski verður sleppt á svæðinu með tilkomu Fish Partner. Þá verður tekin upp sú regla að eingöngu er veitt á flugu.

Stefnt er að því að gera upp húsakost á bænum Þverá sem stendur við ána. Þær framkvæmdir klárast ekki fyrir vorveiðina þannig að veiðimenn munu gista á Hörgslandi sem er skammt frá.

Nú verður sama fyrirkomulag tekið upp í Vatnamótunum, það er að sleppa öllum fiski. Það er því ljóst að fleiri birtingar munu rata upp í Fossála. Þau sjóbirtingssvæði þar sem tekið hefur verið upp veiða/sleppa hafa fljótt skilað árangri. Birtingurinn gengur oft á hrygningarstöðvar. Þetta hefur sést svo greinilega í Eldvatni, Tungufljóti, Leirá, Laxá í Kjós og víðar. Birtingar fara stækkandi og þeim fjölgar.

Fish Partner eru orðnir langstærstu seljendur silungsleyfa. Þeir hafa nýlega tekið Vatnamótin á leigu. Þá eru þeir með víðfeðmt úrval af silungsleyfum víða um land.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert