Fyrsti nýgengni Atlantshafslax ársins veiddist í dag rétt eftir hádegi í írsku ánni Drowes. Nokkrar laxveiðiár bæði á Írlandi og einnig í Skotlandi hafa opnað fyrir veiði og sá fyrsti kom á land í dag eins og fyrr segir. Það var Garrett Bryne írskur veiðimaður sem setti í og landaði þessum fallega tólf punda laxi.
Veiðistaðurinn heitir Eel Weir og veiðisvæðið nefnist Lareen. Garrett sagði í samtali við Sporðaköst í kvöld að viðureignin hefði tekið rúmar tíu mínútur og verið snörp. „Ég var búinn að landa tveimur niðurgöngulöxum en svo kom þessi og það leyndi sér ekki að hann var alvöru nýrenningur,“ sagði Garrett.
Hann bauðst til að senda okkur mynd af flugunni og birtist hún hér með fréttinni. Þetta er rækju eftirlíking með þyngdum haus og augum.
Aðspurður hvort þetta væri óvenju snemmt fyrir fyrsta nýgengna laxinn vildi hann ekki meina það. Þetta væri hefðbundinn tími. „Hins vegar vakti athygli hvað hann var stór og nokkrir veiðimenn nefndu það sérstaklega við mig.“
Laxinum var sleppt og Garrett tekur við tveimur bikurum vegna þessa. Í fyrsta lagi er það bikar sem afhentur er þeim veiðimanni sem landar fyrsta laxinum og þá er einnig veittur bikar fyrir fyrsta laxinn sem sleppt er í ánni Drowes. Garrett landaði þeim báðum með þessum happadrætti.
Sjatnandi vatn er í Drowes og hitastig árinnar var sjö gráður þegar laxinn tók. Búist er við fyrstu löxunum úr skoskum ám um helgina. Íslenskir veiðimenn þurfa ekki að bíða nema í fjóra mánuði eftir að kasta fyrir fyrstu laxana.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |