Listinn yfir þrjátíu fiska sem veiðimenn ættu að reyna við á ferlinum þarf að vera lengri. Það er ljóst eftir viðbrögð veiðimanna við birtingu listans. Hér bætum við nokkrum fiskum við og það er ljóst að listinn á enn eftir að lengjast.
Fjölmargir brugðust við fréttinni frá síðustu helgi og vildu ýmist bæta við fiskum eða höfðu efasemdir um þá sem voru fyrir. Listinn byggir á bókinni 50 fish to catch before you die, eftir John Bailey. Við styttum þennan lista niður í 30 fiska. Eftir að hafa lesið tölvupósta og hlustað á veiðimenn er ljóst að við lengjum þennan lista.
Ein tegund sem ekki er að finna á listanum er bleikjan. Hún einfaldlega gleymdist. Þarf ekki að hafa mörg orð um að við bætum henni við. Margar athugsemdir bárust einnig varðandi steinbít og ufsa. Þeim er líka bætt við.
Einn af þeim sem hafði samband við Sporðaköst vegna listans, var Skarphéðinn Ásbjörnsson og lagði hann til góða viðbót. Sjálfur sagðist hann búinn að veiða tólf af þessum þrjátíu fiskum. Sú tala hefur væntanlega hækkað í að minnsta kosti fimmtán eftir að listinn lengdist. Við báðum Skarphéðinn að senda okkur lista yfir þá fiska sem hann hefur veitt. Hann brást vel við því.
Einn af minnisstæðustu fiskum Skarphéðins er oddnefur sem hann veiddi árið 2018 við Azoreyjar. Þetta var í keppni á vegum EFSA eða European Federation of Sea Anglers sem er Evrópusamtök sjóstangaveiðimanna. Þar keppti Skarphéðinn ásamt öðrum fyrir Íslands hönd. Hann setti í og landaði Blue Marlin eða oddnef, eins og hann heitir upp á íslensku. Þetta var engin smá skepna eins og Skarphéðinn lýsir því. „Ég slóst við hann í meira en klukkutíma og mátti ekki á milli sjá hvor gengi frá hinum. En þetta hafðist á endanum og hann var metinn 385 kíló út frá lengdinni. Þessum fiskum er sleppt við bátshlið og einungis skotið á þyngdina. Það var reyndar eitt augnablik þar sem ég hélt að ég væri búinn að missa hann. Þetta var alveg undir lok viðureignarinnar og hann var svona fjörutíu metra frá bátnum og allt í einu varð allt slakt. Úff, ég var svo viss um að hann væri farinn. En þá sáum við hann synda réttan aftan við skutinn á bátnum og ég dreif inn línu og þá var hann enn á. Þetta var svakalegt augnablik í viðureigninni,“ sagði Skarphéðinn í samtali við Sporðaköst um þennan mikla fisk. Íslenska liðið endaði í fimmta sæti í þessari keppni og vó oddnefurinn þungt fyrir liðið.
Oddnefurinn getur orðið enn stærri og sá stærsti sem skráður hefur verið mældist 1,376 pund eða tæp sjö hundruð kíló.
Listi Skarphéðins Ásbjörnssonar:
Lax (Salmo salar) 11,5 kg Blanda.
Lúða (Hippoglossus Hippoglossus)
Maísíld (Alosa alosa) Skil ekki hvers vegna hún er hér, lítið varið í að veiða hana, bara stór síld. Weymouth Englandi.
Regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss) Svíþjóð.
Urriði (Salmo trutta) 9 kg Litlaá.
Ísaldarurriði (Salmo trutta) Þingvallavatn.
Sjóbirtingur (Salmo trutta) 6,5 kg Héraðsvötn.
Oddnefur, Blue Marlin (Makaira nigricans) metinn 385 kg, sleppt, Asoreyjum.
Barri, Sea Bass (Dicentrarchus labrax) Weymouth England.
Þorskur (Gadus morhua) 32 kg. Gjögur Eyjafirði.
Makríll (Scomber scombrus) Skil heldur ekki hvers vegna hann er á þessum lista, ekkert varið í að veiða hann. Akureyri.
Gedda (Esox lucius) Svíþjóð.
Af meira framandi fiskum þá er greinilegt að veiðimenn telja eðlilegt og áríðandi að bæta eftirtöldum fiskum við. Vatnakarpa, eða Carp og Styrju eða Beluga great sturgeon. Hér eiga fleiri fiskar eftir að bætast við. Samtals telur þessi listi þá orðið 35 fiska.
Atlantshafslax (Laxinn okkar)
Bleikja (Arctic char)
Kyrrahafslax (Hér er horft til Chinook sem er stærstur af fimm tegundum)
Maísíld (Allis shad)
Laxaborri (Black Bass)
Regnbogasilungur (Veiðist stöku sinnum hér á landi)
Urriði (Þennan þekkjum við vel)
Steelhead (Laxakvísl regnbogasilungs)
Dónárlax (Huchen)
Taimen (Skyldur Hucho. Heimkynni eru Mongólía og Síbería)
Golden Dorado (Heimkynni: Suður – Ameríka)
Harri (Grayling)
Ísaldarurriði (Þekkjum hann vel úr Þingvallavatni)
Sjóbirtingur (Einn af okkar aðal)
Permit (Er reyndar sjávarfiskur en heimkynni eru Evrópa og Asía)
Seglfiskur (Sail fish)
Lúða (Halibut)
Gráröndungur (Grey Mullet)
Oddnefur (Marlin)
Barri (Sea Bass)
Barracuda (Barrakúði skv. Hafró)
Giant Trevally
Silfurkóngur (Tarpon)
Bonefish
Þorskur (Cod)
Makríll
Bláuggi (Túnfiskur)
Ufsi (Pollack)
Steinbítur (Wolffish)
Tiger fish
Gedda (Pike)
Fengrani (Catfish)
Risaari (Arapaima)
Styrja (Margar tegundir)
Vatnakarpi (Carp)
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |