Guðrún E. Thorlacius er látin. Hún var um árabil félagi númer eitt í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og einn af átján handhöfum gullmerkis félagsins. Jón Þór Ólason, formaður SVFR minnist þessarar merku konu á facebook síðu félagsins, fyrir hönd stjórnar. Þau kveðjuorð fylgja hér.
„Veiðigyðjan Guðrún E. Thorlacius hefur kvatt þennan heim, á 97. aldursári. Hún stendur nú keik og kastar brosandi á safírbláan strenginn á veiðilöndunum fyrir handan, undir fögrum söng mófuglanna. Umgjörð sem hæfir veiðigyðju.
Guðrún var um langt árabil félagi nr. 1 í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, mikilsmetin og dáð í okkar hópi. Hún var fyrsta konan sem skráði sig í SVFR haustið 1941, einungis 16 ára gömul. Var Guðrún því brautryðjandi í karllægum veiðiheimi. Hún var því félagsmaður í SVFR í 81 ár, en félagið var stofnað einvörðungu tveimur árum áður. Enginn félagsmaður hefur því lengur verið í SVFR. Faðir Guðrúnar, Einar Tómasson, kolakaupmaður og stórveiðimaður var ennfremur brautryðjandi enda meðal stofnfélaga SVFR þann 17. maí 1939.
Guðrún veiddi um árabil með föður sínum í Elliðaánum og naut þess að standa á bökkum þessarar perlu Reykjavíkur. Það var vel við hæfi að síðasti lax hennar kom á Breiðunni þann 8. júlí 1994 sem var jafnframt hennar stærsti lax, eða tæp 16 pund. Guðrún kenndi svo eigin afkomendum handtökin við bakka heimavallar SVFR.
Á 80 ára afmæli SVFR 2019 var Guðrún sæmd gullmerki félagsins í Baðstofu iðnaðarmanna, hvar faðir hennar hafði ásamt öðrum stofnað Stangaveiðifélag Reykjavíkur. Guðrún var 18 einstaklingurinn er hlaut þá upphefð og var einstaklega vel að henni komin.
Sporðaköst senda fjölskyldu Guðrúnar samúðarkveðjur.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |