Hátt í tvö hundruð ungmenni á Akureyri hafa á undanförnum árum útskrifast úr valáfanganum Fluguhnýtingar og stangveiði. Kennslan fer fram í Brekkuskóla, það er að segja bóklegi hlutinn og fluguhnýtingakennslan. Stór hluti námsins er hins vegar utan dyra og meðal annars er farið í tvær veiðiferðir.
Kennarar eru þeir Sigurjón Magnússon og Kári Ellertsson, báðir forfallnir veiðiáhugamenn. Áfanginn hefur verið í boði frá 2013 en hugmyndina fengu þeir eftir að hafa heyrt af sambærilegu námi sem var í boði á Siglufirði. „Það er virkilega gaman að kenna þennan áfanga, sem er valáfangi fyrir alla grunnskóla á Akureyri. Ég veit að hjá mörgum nemendum kviknaði neisti sem varir enn. Sum koma með bál í sér sem er löngu áður kviknað en fá þá að taka valgrein sem þau hafa áhuga á rétt eins og íþróttakrakkarnir eða aðrir,“ sagði Sigurjón í samtali við Sporðaköst.
Nokkrir af þeim ungu veiðimönnum sem völdu þennan áfanga hafa heldur betur látið að sér kveða. Lesendur Sporðakasta kannast án efa við þá Gylfa Kristjánsson og Benjamín Þorra Bergsson sem oft hafa verið til umfjöllunar fyrir magnaða veiði í Eyjafjarðará og víðar. Þeir frændur eru barnabörn fluguhnýtarans Gylfa Kristjánssonar sem meðal annars hannaði og hnýtti silungafluguna Krókinn. Gylfi og hans verk eru í miklum metum í áfanganum og fyrsta alvöru flugan sem krakkarnir reyna sig við er einmitt Krókurinn.
Fluguhnýtingaþáttur námsins miðar að því að kenna krökkunum undirstöðuatriðin í hnýtingum og þau fá leiðsögn við að hnýta nokkrar vinsælar silunga- og laxaflugur. Lokaverkefni þessa hluta áfangans er svo að hanna og hnýta eigin flugu.
Nemendur hafa notið þess að fara í Eyjafjarðará, Reykjadalsá og í dorgveiði í Langavatni, svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur Lónið í Glerá á Akureyri oft verið vettvangur flugukastkennslu. „Við höfum notið mikils velvilja hjá veiðiréttarhöfum. Þannig hefur Matthías Hákonarson, sem er með Fluguveiði.is leyft okkur að fara með nemendur í Vestmannsvatn og Reykjadalsá og við höfum fengið að fara frítt með nemendur í Eyjafjarðará í boði veiðifélagsins. Þetta er ómetanlegt fyrir okkur og krakkana.“
Það er óhætt að segja að þeir Sigurjón og Kári taka þetta alla leið. Hér er dæmi.
„Ég fæ hvítmaðk frá Atla bónda á Ingjaldsstöðum í Bárðardal en hann hendir hræi út á haustin uppá gamla mátann og lætur maðka. Hann er einn af fáum sem er með svona gamaldags maðkaveitu. Ég fæ svo hnausa til að tína úr maðk og svo er fyrirlestur fyrir krakkana hvernig þetta allt er gert og sýnikennsla þar sem maðkurinn er settur upp í sig og undir tunguna til að fá líf í hann áður en honum er beitt,“ hér brosir Sigurjón.
Það er mikilvægt að ungir veiðimenn fái tækifæri til að fræðast um sportið en flest allir sem tengjast veiðinni á einhvern hátt eru sammála um að einna mikilvægast sé að fjölga ungum veiðimönnum og þar með tryggja að sportið lifi góðu lífi. Við höfum áður sagt frá sambærilegum áfanga í Rimaskóla í Grafarvogi og einnig hefur Smáraskóli í Kópavogi boðið nemendum sínum upp á sambærilegan valáfanga og sjálfsagt fleiri skólar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |