Einn af draumafiskum flestra veiðimanna sem horfa út fyrir Ísland, er hinn gullni Dorado eða Golden Dorado. Latneska heiti hans er Salminus brasiliensis og þó svo að salminus sé fyrri hluti heitisins er hann ekki skyldur neinum laxfiski. Hann er heldur ekkert skyldur nafna sínum sem veiddur er í sjó og grænleitur með sérkennilegan haus. Dorado er stundum kallaður tígrisdýr árinnar og í útliti líkist hann forsögulegum laxi með kjálkastyrk sem einungis sterkustu ferfætlingar búa yfir. Þetta eru magnaðir fiskar og geta svo sannarlega gert tilkall til titilsins eftirsóttasti sportfiskur í heimi.
Meðal stærð af Dorado er á bilinu sex til tuttugu pund en þeir geta orðið miklu stærri og sá stærsti sem vitað er um vigtaði 34 kíló eða tæp sjötíu pund.
Einn þeirra Íslendinga sem landað hefur Dorado er Sigþór Steinn Ólafsson, hlaðvarpsstjórnandi, fluguhnýtari og leiðsögumaður.
Það var á því eftirminnilega ári 2007 sem Sigþór og tveir félagar hans komust í tæri við hinn gullna Dorado. „Ég og Þorgils Helgason og Tómas Gunnar Thorsteinsson félagar mínir vorum að klára Kvennaskólann og á þessum tíma var dollarinn í 57 krónum svo við ákváðum að fara í heimsreisu, eins og tíðkaðist þá. Við vorum á bakpokaferðalagi um Brasilíu og Argentínu og fórum svo síðar yfir til Asíu.
Við vorum staddir á landamærum Argentínu, Brasilíu og Paragvæ að skoða þjóðgarð þar sem er utan um Iguazu fossana. Við höfðum sent fyrirspurn til fólks sem bjó þarna í nágrenninu og móðir Þorgils þekkti. Þetta fólk fann leið fyrir okkur til að fara að veiða í Paraná ánni sem er eitt hinum miklu fljótum Argentínu. En einmitt í þessari á er hægt að veiða Dorado. Við þurftum svo sannarlega að taka skyndiákvörðun og við stukkum upp í rútu til að komast í veiðina og það var tíu tíma ferðalag. Svo þegar við komumst loks á leiðarenda í veiðihúsið þá kom í ljós að þetta var eftirlætis veiðistaður Gabríel Omar Batistuta fyrrverandi stormsenter Argentínska landsliðsins. Það voru myndir af honum upp um alla veggi í veiðihúsinu.
Brasilía hafði verið svona eins og Ísland í þessari efnahagsbólu sem hafði verið á árunum á undan og það var mikið af ríkum Brasilíubúum á þessum tíma. Í veiðihúsinu voru líka bara Brasilíumenn og svo við.“
Var þetta dýrt á þessum tíma?
„Nei, fjarri því. Ég man að við greiddum andvirði tíu þúsund króna á mann. Það var gisting, allar máltíðir, allir drykkir, leiga á öllum búnaði, leiðsögumaður og bátur í tvo daga. Þetta var mjög súrrealískt. Við vorum þarna í bungalowi með sundlaug og allt til alls.
Þetta var mikil upplifun. Við sátum aftan á pallbíl niður að ánni og þar hittum við leiðsögumanninn okkar og hann vildi bara að við kölluðum sig Negro. Við urðum hálf hvumsa enda eins og einhverjir muna þá lenti Luis Suarez, leikmaður Liverpool í löngu leikbanni fyrir að kalla Patrice Evra hjá Manchester United einmitt Negro. Og við urðum að kalla leiðsögumanninn þessu nafni. Það var alltaf hálf vandræðalegt þegar við ávörpuðum hann en okkur stóð ekki annað til boða.
Það er rétt að taka að fram að þetta er ekki þessi fína veiði sem menn sjá í bæklingum í dag þar sem veiðimenn kasta flugu í tært vatn. Sú veiði fer fram í hliðarám þessa fljóts en okkur var bara mokað upp í flottan bát og sigldum upp Paraná ána. Við fengum allir öflugar stangir og beitu sem var lifandi álar sem voru þræddir upp á öngul. Þessu var svo kastað út með sökku. Þetta fór þannig fram að báturinn sigldi upp ána að bauju sem var mjög áberandi og þar var byrjað að veiða og okkur rak niður ána þar til komið var að annarri bauju og þá var aftur siglt upp eftir að efri baujunni og svona var þetta endurtekið allan daginn.
Þetta var svo sem ekkert stórbrotin veiði en við fengum allir Dorado. Ég og Tómas voru með sitt hvora tvo og Þorgils fékk einn. Svo fengum við einhvern meðafla sem voru einhverjir vatnakarfar sem við kunnum ekki skil á. En þessir Doradoar voru flottir fiskar, á bilinu sex til tíu pund. En við sáum til dæmis í nágrenni við okkur fékk einn veiðimaður fisk sem sjálfsagt hefur verið um þrjátíu pund. Svo var einn veiðimaður sem náði sér í Skóflunefs-leirgeddu. Það var fiskur sem var einhver fimmtíu kíló og við félagarnir héldum á honum fyrir þennan Brasilíumann á meðan teknar voru myndir.“
Var þessi veiði ekki hápunktur þessarar heimsreisu?
„Jú, að mörgu leiti. Ég er náttúrulega veikur og var stöðugt að kaupa öngla og girni og eitthvað til að beita og mættur niður á bryggju til að veiða eitthvað. Ég man að ég veiddi á Tælandi fjörutíu punda Cobia fisk, en þeir eru mjög oft undir hákörlum og slíkum fiskum og nærast með þeim á því sem til fellur. Það var mikið ævintýri og ég hafði keypt mér svo túr á tvö þúsund krónur og var með tveimur Hollendingum á bát, en þeir voru báðir atvinnumenn í póker og bjuggu þarna í Tælandi. Fljótlega sá maður að það stóð bara til að veiða einhverja smáfiska. Skipstjórinn talaði enga ensku og báturinn iðaði í kakkalökkum. En ég fann vír og setti einn af þessum smáfiskum upp á hann og þá tók þessi Cobia og ég náði þeim fiski eftir tveggja klukkustunda baráttu á þessar litlu græjur sem við vorum með.
Það var mikil karnivalstemming þegar við komum í land með þennan fisk. Hann var nánast tættur af mér fiskurinn og ég endaði með bara hausinn af honum. Daginn eftir fórum við félagarnir með hausinn á veitingastað og báðum þá að elda hnakkastykkið og kinnarnar og þeir gerðu það og rukkuðu okkur ekkert fyrir. En héldu svo restinni af hausnum því hann er mjög eftirsóttur í súpu. Þetta var alveg geggjaður tími og reyndar er margt mjög skemmtilegt þegar þú ert nítján ára að ferðast um Suður – Ameríku,“ segir Sigþór og hlær.
Hann er nýkominn frá Argentínu þar sem hann upplifði margt nýtt og fannst hann á vissan hátt uppgötva hvað hann á margt eftir að læra í veiðinni. Meira af ævintýrum Sigþórs og félaga í Suður – Ameríku, á næstu dögum. Hér á Sporðaköstum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |