Stjórn SVFR var endurkjörin á aðalfundi félagsins, sem haldinn var í dag. Í ávarpi sínu á fundinum sagði Jón Þór Ólason, formaður SVFR, að á síðasta starfsári hafi starfið gengið vonum framar þrátt fyrir minni laxgengd en vonir stóðu til.
Hann sagði raunar frábært rekstrarár að baki og með samstilltu átaki hefði tekist að snúa vörn í sókn og niðurstaðan væri sérstaklega ánægjuleg – besta rekstrarafkoma félagsins frá upphafi. Hagnaður félagsins á nýliðnu ári var 44,1 milljón króna. Þá rakti formaður helstu verkefni stjórnarinnar. Fór yfir sölutölur, samskipti við veiðiréttarhafa og endurnýjun samninga um veiðisvæði og fleira.
Jón Þór sagði útlitið fyrir þetta ár gott. Mikil aðsókn væri í veiðileyfi SVFR og mikil vinna undanfarinna ára væri að skila sér í betri rekstri, skýrari ferlum og sterkara félagi. Færði hann öllum hlutaðeigandi þakkir fyrir það mikla starf og sérstaklega starfsfólki á skrifstofu félagsins. Formaður greindi frá fjölgun félagsmanna, sem kom nokkuð á óvart í ljósi þess að félagsstarfið hefur liðið mjög fyrir heimsfaraldur undanfarin tvö ár. Félagsmönnum fjölgaði um 130 milli ára.
Þeir stjórnarmenn sem voru endurkjörnir til tveggja ára eru: Trausti Hafliðason, Halldór Jörgensen og Hrannar Pétursson. Aðrir í stjórn eru: Helga Jónsdóttir, Lára Kristjánsdóttir og Ragnheiður Thorsteinsson.
Heyra mátti á formanni og stjórnarmönnum að miklar væntingar eru hins vegar bundnar við næstu misseri, þar sem félagsstarfið getur hafist að nýju undir forystu nýrrar viðburðanefndar sem mun samstilla viðburði og gegna lykilhlutverki í félagsstarfinu.
Fyrr í dag bárust einmitt fréttir af því að Fræðslukvöld Stangó hefjast á nýjan leik í þessari viku. Fyrsta kvöldið verður haldið næstkomandi fimmtudag á Ölveri og munu þar Pálmi Gunnarsson tónlistamaður og Hrafn H. Hauksson, einn af þessum ungu snillingum í veiðinni, tala um sjóbirtinginn. Víst er að báðir þessir hafa úr djúpum brunni að ausa. Húsið opnar klukkan 20 og eru allir velkomnir.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |