„Ef maður staðnar þá tapar maður“

Sigþór með fallegan birting úr Rio Gallegos í Argentínu. Sigþór …
Sigþór með fallegan birting úr Rio Gallegos í Argentínu. Sigþór lærði margt um sjálfan sig sem veiðimann í ferðinni. Ljósmynd/SSÓ

Við höldum áfram að fjalla um ævintýraferðir íslenskra veiðimanna á fjarlægar slóðir í leit að draumafiskum og öðruvísi upplifun. Sigþór Steinn Ólafsson er nýlega kominn úr sjóbirtingsveiði í Argentínu þar sem ferðafélagar hans voru þeir Heiðar Valur Bergmann og Tryggvi Þór Hilmarsson.

Og hvernig var þetta Sigþór?

„Þetta var ógeðslega áhugaverð lífsreynsla. Við vorum kannski aðeins of peppaðir og héldum að við værum meiri karlar en svo kom í ljós. Það er samt alltaf dýrmætt í þessari veiði að takast á við nýjar áskoranir og það rekur mann áfram til að verða betri veiðimaður.

Við fengum fiska og flotta fiska og suma stóra en vatnsleysi og almennt kunnáttuleysi gerðu okkur erfitt fyrir. Veiðin í Rio Gallegos er erfiðari en til að mynda Rio Grande sem Íslendingar hafa töluvert mikið vera að fara í,“ sagði Sigþór í samtali við Sporðaköst um ferðina.

Heiðar Valur Bergmann með magnað eintak. Bjartur hængur. Þeir félagar …
Heiðar Valur Bergmann með magnað eintak. Bjartur hængur. Þeir félagar voru að fá einn til tvo góða birtinga á dag og slatta af urriða. Ljósmynd/SSÓ

Hvernig var þetta erfitt?

„Áin er erfið. Rio Grande er kannski ekki ósvipuð Eystri – Rangá í stærð og umhverfi. Rio Gallegos er aðeins minni í rennsli og hún er töluvert breiðari og mjög grunn. Fiskurinn er dreifður á löngum kafla og hann er ofboðslega styggur og meðvitaður um veiðimenn. Birtingurinn er orðinn sólbakaður og svo þarf að glíma við vindinn sem er eins konar vörumerki þessa svæðis. Þarna er stöðugur vindur frá Andesfjöllunum niður að sjó. Hann er sem betur fer niður ána og þannig séð hjálpar hann. Maður þarf að kasta eins langt og maður getur. Láta línu og flugu lenda eins og maður sé að kasta þurrflugu fyrir silung og svo þarftu að plata fiskinn. Þannig að þetta er tæknilega erfitt og veðuraðstæður erfiðar. En þetta var ógeðslega gaman engu að síður.“

Hvað var hann að taka hjá ykkur? Voru þetta hefðbundnar púpur eða straumflugur?

„Markmiðið var náttúrulega að kynna þeim hvað andstreymisveiðin væri öflug. En það var hreinlega ekki hægt sökum vatnsleysis. Hún rann ekki nógu hratt til að fá almennilegt rek á púpuna. Undir eðlilegum kringumstæðum og þegar ég fer næst þá mun ég reyna púpuna meira.

Mest ertu bara að kasta fjörutíu og fimm gráður með tvíhendu. Hann var helst að taka litlar púpur hjá okkur tólf og fjórtán, með þessum rubber legs eins og við þekkjum vel orðið heima. Þeir strippa þetta hægt á löngum taumum sem er frá tólf til tuttugu fet. Taumurinn er fimmtán punda og púpan er hnýtt á með lykkjuhnút. Leiðsögumennirnir vilja meina að hreyfingin af fálmurum á flugunni æsi fiskinn upp. Svo nefndu þeir líka að sjóbirtingurinn étur mikið af ungviði kolkrabba og smokkfisks í sjónum og fálmararnir veki upp einhver gömul viðbrögð frá dvöl þeirra í sjónum. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það.

Tryggvi Þór Hilmarsson með hnall. Landslagið er afar
Tryggvi Þór Hilmarsson með hnall. Landslagið er afar "íslenskt" að sjá. Ljósmynd/SSÓ

Svo eru staðir þar sem er aðeins meiri straumur og það var bara eins og að koma að veiðistöðum í Grímsá eða Langá eða öðrum íslenskum ám. Þar veiða þeir á Night Hawk eða Collie Dog og Hairy Mary og hefðbundnar laxaflugur enda meiri hreyfing á vatninu.

Í þessari á þá snýst þetta allt um að styggja ekki fiskinn. Það sem maður tekur út úr þessu til að verða betri veiðimaður er virkilega margt. Leiðsögumennirnir byrjuðu á að rífa naglana úr skónum hjá okkur. Þeir sögðu að fiskurinn heyrði í þér þegar naglarnir merjast við mölina. Þeir banna manni að vaða og í mesta lagi máttirðu fara upp fyrir skó. Ef þú ætlar að vaða yfir ána vegna aðstæðna þá verður þú að gera það fyrir neðan hylinn því bara rótið á mölinni sem þú sparkar upp fyrir ofan hylinn það vekur grunsendir hjá fiskinum.

Sjóbirtingsveiði á Íslandi var ofurlítið stöðnuð í nokkur ár en er að komast á flug aftur með andstreymisveiði og þetta er kannski eitthvað sem við þurfum að fara að hugsa meira um að fara varlegar.“

Þessi mynd gæti hæglega verið frá Íslandi. Þeir félagar þurftu …
Þessi mynd gæti hæglega verið frá Íslandi. Þeir félagar þurftu að glíma við vatnsleysi sem gerði veiðina erfiðari. Ljósmynd/SSÓ

Mér finnst magnað að heyra þetta með naglana.

„Það var það fyrsta sem leiðsögumennirnir gerðu, að rífa þá burt. Hvernig dettur ykkur þetta í hug? Bara alls ekki hér, sögðu þeir. Við ættum að hafa það í huga að þetta er allt í grunninn urriði. Þessi stofn þarna var fluttur til Argentínu fyrir hundrað árum, mest frá Þýskalandi, af Bretum og þeir eru alveg eins og okkar fiskur. Með sömu skynfæri. Þannig að maður gefur sér að fisknum á Íslandi sé meira sama en er honum alltaf meira sama? Kannski þegar er lítið vatn og sól. Þetta er kannski eitthvað sem við ættum að hugsa meira um. Annað sem maður tók eftir er að þeir veiða bara með straumflugum, Sunray og slíku, eftir að fór að skyggja. Þeir tóku ekki í mál að kasta slíku yfir daginn. Við köstum Black Ghost allan daginn fyrir sjóbirting og segjum svo bara hann tekur ekki þegar er svona mikil sól. Hann kannski tekur bara ekki Black Ghost og Sunray þegar er mikil birta.“

Sigþór er hugsi yfir ferðinni og telur að þetta hafi verið þroskandi að takast á við. „Um leið og maður heldur að maður sé kominn á einhvern pall þá er hollt og gott að láta kippa sér niður og setja menn aftur á byrjunarreit. En þetta var svo spennandi og ég get ekki beðið eftir að komast aftur til Argentínu og reyna mig á nýjan leik við þessa fiska.“

Hvernig var veiðin svo þegar upp var staðið?

„Við áttum von á meiri veiði en eins og ég segi þá setti vatnsskortur strik í reikninginn. En við vorum að fá einn til tvo flotta sjóbirtinga á dag á mann. Þeir sem voru betri tvíhendukastarar en við, þeim var að ganga aðeins betur. Svo eru menn að fá fimm til sex flotta urriða yfir daginn en þú ert ekki að ferðast alla þessa leið til að setja í þá.

Það fyrsta sem leiðsögumennirnir gerðu var draga naglana úr skónum …
Það fyrsta sem leiðsögumennirnir gerðu var draga naglana úr skónum hjá þeim félögum. Fiskurinn heyrir í ykkur, sögðu þeir. Ljósmynd/SSÓ

Ég hringdi strax í Glendu Powell vinkonu mína, þegar ég kom heim. Hún er alltaf með tvær vikur þarna á hverju ári og fer með írska veiðimenn í Rio Gallegos. Hún er heimsmeistari í tvíhenduköstum og hún er búin að kaupa sér flug til Íslands og við ætlum að vera með tvíhendu námskeið fyrir Íslendinga í Soginu í júní. Þetta er bara næsta þráhyggja hjá mér. Maður er með bíl sem er fimm gíra og maður er fastur í þriðja gír þegar maður er ekki búinn að tileinka sér þetta.“

Þeir sem lesa þetta og hafa áhuga á að komast á tvíhendu námskeið með Sigþóri og heimsmeistaranum geta nálgast hann á samfélagsmiðlum. Hann er líka að taka viðtal við Glendu fyrir hvaðvarpið sitt Hylinn og mun það birtast á næstu vikum. Hann segir að fljótlega muni liggja fyrir verð og dagsetningar og það sem meira er þá ætla að þau að vera með holl í Blöndu um miðjan júní þar sem menn geta mætt með tvíhendurnar sínar og hún slípar menn til.

Þetta hljómar spennandi.

„Maður verður að passa sig að staðna ekki. Um leið og maður heldur að maður viti allt þá er maður búinn að tapa.“

Hylurinn tekinn upp í Argentínu. Sigþór og Christer Sjöberg ræða …
Hylurinn tekinn upp í Argentínu. Sigþór og Christer Sjöberg ræða saman. Ljósmynd/SSÓ

En það er fleira spennandi á döfinni hjá Hylnum. Nú á fimmtudag mun Sigþór birta viðtal sem hann tók í ferðinni við Christer Sjöberg stofnanda Loop árið 1979 og eigandi Solid Adventures. „Þetta er einn af merkilegri köllunum í bransanum. Hann stofnaði Loop og fann upp Large Arbor veiðihjólið. Þetta er maðurinn sem var fyrstur til að hefja starfsemi og selja veiðileyfi í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna. Christer og félagar voru að veiða með okkur í Argentínu og hann var að halda upp á að það eru tuttugu ár frá því að hann kom þarna fyrst og byggði þetta veiðihús. Þá var ekkert þarna nema kindabúgarður. Við vorum heppnir að fá að fljóta með því hinir veiðimennirnir voru félagar hans. Fólk sem hefur staðið með honum í gegnum tíðina og hann bestu viðskiptavinir.“

Þetta verður eitthvað, eins og maðurinn sagði og mun birtast fljótlega sem næsti þáttur af Hylnum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert