Straumflugur á sterum við Seychelles

María Anna Clausen með GT. Tveir veiðimenn eru saman í …
María Anna Clausen með GT. Tveir veiðimenn eru saman í bát og leiðsögumaður með. Litirnir eru svo magnaðir. Sjórinn, himinn og sandurinn. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður gerðu þau María og Óli fína veiði. Ljósmynd/ÓV

Töluvert er um ævintýraveiðiferðir hjá íslenskum veiðimönnum þessar vikurnar. Veiðihjónin Óli og María í Veiðihorninu voru að koma úr einni slíkri þar sem þau köstuðu fyrir nokkra af eftirsóttustu sportveiðifiskum í heiminum.

Sporðaköst óskuðu eftir veiði– og ferðaskýrslu frá Maríu og fylgir hún hér að neðan.

„Við erum nýkomin heim úr mikilli ævintýraferð til Seychelleseyja sem er eyjaklasi í suðvestur Indlandshafi, austan við Afríku.

Höfum veitt nokkrum sinnum áður á ýmsum kóralrifjum Seychelles, svo sem Alphonse, Farquhar, Providence en þetta var fyrsta ferð okkar til Cosmoledo sem er kóralrif lengst frá Mahé sem má segja að sé einskonar Heimaey Seychelleseyja. Cosmoledo er stundum kölluð “GT’s Capital of the World” en markmið ferðarinnar var að setja í nokkra Geet´s eða Giant Trevally, einhverja eftirsóknarverðustu sportfiska veraldar. Við bókuðum þessa ferð fyrir tveimur og hálfu ári en góðar vikur á Cosmo eru mjög eftirsóknarverðar. Þegar ég segi góðar vikur þá skiptir kannski ekki miklu máli hvenær ársins veitt er, heldur skipta sjávarföllin miklu máli. Talað er um “Neap Tides” og “Spring Tides” “Neap Tides” eru sjávarföll þar sem minnstur munur er á milli flóðs og fjöru en “Spring Tides” þvert á móti þar sem mikill munur er á milli flóðs og fjöru en þá er meira líf í þeirri veiði sem við vorum að sækjast eftir.

GT eða Gian Trevally eru afskaplega kraftmiklar skepnur. Hér er …
GT eða Gian Trevally eru afskaplega kraftmiklar skepnur. Hér er María með glæsilegt eintak. Að þessu sinni prófuðu þau nýjan stað á Seychelleseyjum. Ljósmynd/ÓV

Ferðalagið til Cosmo er langt. Flogið er með lítilli vél í klukkutíma frá Mahé til Alphonse kóralrifsins og þaðan í einn og hálfan tíma til Astove rifsins. Þar er tekinn bátur og siglt í ríflega einn og hálfan tíma til Cosmoledo.

Það er engin föst búseta á Cosmoledo. Fyrir fáeinum árum var ekkert á skerinu heldur bjuggu veiðimenn um borð í báti sem lá fyrir akkerum úti fyrir ströndinni og héldu þaðan á miðin á morgnana í smá kænum. Nú er búið að reisa myndarlega byggð gáma og tjalda þar sem væsir hvorki um veiðimenn né starfsfólk. Öll aðstaða fyrir veiðimenn er til fyrirmyndar. Við búum í gámum sem hafa verið innréttaðir mjög smekklega með góðum og þægilegum rúmum, salernisaðstöðu og síðast en ekki síst útisturtu.

10 til 12 veiðimenn veiða Cosmoledo í einu en um 20 starfsmenn; kokkar, þjónustufólk, veiðileiðsögumenn og fleiri halda einnig til á kóralrifinu þá mánuði sem veitt er á þessum slóðum.

Með Bonefish. Þessi var um sjö pund og lét hafa …
Með Bonefish. Þessi var um sjö pund og lét hafa fyrir sér. Ljósmynd/ÓV

En að veiðinni. Þegar veitt er í sjó við miðbaug eru bestu aðstæður léttur andvari og umfram allt sólskin. Sólskinið viljum við til þess auðvelda okkur að finna þá fiska sem við leitum að og andvarann kjósum við svo það sé létt gára á sjónum og fiskarnir sjá okkur síður. Öll þessi veiði er einskonar “hunting” þ.e. við erum að leita að tilteknum fiskum til að kasta agni fyrir.

Það má segja að við höfum verið fremur óheppin hvað varðar veður, fengum tvo góða daga, tvo sæmilega en tvo mjög erfiða. Við höfum aldrei upplifað aðra eins rigningu og þrumuveður með tilheyrandi eldingum. Eins og gefur að skilja vill enginn vera á smá kænu úti á sjó með flugustöng á lofti þegar eldingar skera himininn. Einn daginn var ekki farið á sjó fyrr en undir hádegi.

Ólafur Vigfússon og María Anna Clausen með úrvals eintak af …
Ólafur Vigfússon og María Anna Clausen með úrvals eintak af GT. Þessi mældist rétt um hundrað sentímetrar. Ljósmynd/ÓV

Þrátt fyrir þetta veiddum við vel. Settum í stóra og lönduðum einum mjög stórum GT og fengum góðan slatta af minni fiskum auk annarra tegunda. Meðal annars mjög vænan Bluefin Trevally og stóra Bonefish allt uppí 65 sm. sem er á að giska 7 pund. Stærsti Giant Trevally sem við lönduðum var um meter eða u.þ.b.40 pund.

Þegar skýjað er, erfið veðurskilyrði og erfitt að finna fisk er skipt um flugur og blindkastað ýmist “Popperum” eða “Big Profile” flugum. Popperar eru flugur með búk úr frauði og eru dregnar hratt og snöggt á yfirborði sjávar og búa þar til hávaða og læti til að draga að fiska. Big Profile flugur eru flugur sem eru mjög breiðar og stórar og veiddar í yfirborði sjávar. Fiskar sem synda þar undir sjá þessar flugur mjög vel þar sem þær ber við himinn.

Félagarnir tveir sem kölluðu eftir aðstoð við innbyrða þessa tvo …
Félagarnir tveir sem kölluðu eftir aðstoð við innbyrða þessa tvo fiska. Sá sem er nær á myndinni mældist 100 sentímetrar og hinn var 106 sentímetrar. Félagarnir voru alveg búnir eftir þetta ævintýri. Ljósmynd/ÓV

Eitt eftirminnilegasta ævintýri þessarar ferðar var þegar við vorum kölluð upp í talstöð til að aðstoða veiðifélaga okkar á næsta bát; Steve frá Salt Lake City, USA og Patrick frá Írlandi sem voru í miklum erfiðleikum. Skýjað var og rigning þennan dag svo ekkert var annað í stöðunni en að kasta Popperum og Big Profile flugum. Stór fiskur tók Big Profile flugu hjá Steve og þegar þeir sáu að annar stór fiskur fylgdi þeim sem Steve var að þreyta kastaði Patrick flugu á hann sem tók strax. Angus, leiðsögumaðurinn þeirra lenti náttúrulega í miklum vandræðum með að stjórna bátnum og aðstoða tvo veiðimenn með stórfiska svo við komum til hjálpar. Allt endaði vel og tveimur hamingjusömum, brosandi en þreyttum veiðimönnum tókst að landa tveimur rúmlega meters löngum Giant Trevally á sama tíma. Magnað og algjörlega mjög sérstakt augnablik. 

Þegar Steve hringdi heim í konuna sína sagði hann “Jill, I´m so tired. I literally was casting a fly which was the size of our cat.”

Einn daginn þegar ég var að blindkasta popper og draga hratt að bátnum sem ég stóð í birtist skyndilega ógurlegur tígrishákarl og æddi á eftir flugunni í átt að bátnum. Hákarlinn sem mér sýndist um meters breiður renndi sér svo undir bátinn við fætur mér. Vægast sagt eftirminnileg sjón.

Dæmigerður veiðidagur er þannig að ræs er um 6:30. Eftir sturtu og góðan morgunmat er farið í bátana. Tveir veiðimenn eru í bát ásamt einum “gæd”. Eftir að gædinn er búinn að fara yfir öryggismál., kenna á bátinn, talstöðina, gervihnattasímann og hvernig við eigum að bregðast við komi eitthvað fyrir hann er lagt í hann á líklega staði þar sem þeir fiskar sem við erum að leita að kunna að vera. Um borð í bátnum er náttúrulega YETI kælikista full af klaka, nesti og drykkjarföngum fyrir daginn. Veitt er stanslaust undir miðbaugssólinni alveg til fimm þá er siglt er í land aftur. Þegar í land er komið er saltið skolað af veiðigræjunum. Veiðimenn hittast á barnum yfir einum / tveimur og sagðar eru og hlustað á veiðisögur dagsins. Eftir gómsætan þriggja rétta kvöldverð er maður svo búinn og tilbúin í að hvíla sig fyrir ævintýri næsta dags.

Þegar við erum á sjó, ýmist á bát eða vaðandi í sjónum erum við með tvær stangir klárar. Níu feta einhendu fyrir línu númer 11 eða 12 fyrir Giant Trevally. Flugurnar eru eins og straumflugur á sterum og taumarnir 100 til 120 pund. Seinni stöngin sem við berum er líka níu feta einhenda en fyrir línu 8 eða 9. Þessi stöng er klár með krabbaflugu til þess að kasta fyrir Triggerfish eða Permit. Eins og ég minntist á áðan erum við að “hunta” eða leita að fiskum sem við ætlum að kasta fyrir og þurfum þess vegna alltaf að vera tilbúin fyrir mismunandi köst, stripp og aðrar aðferðir sem henta til veiða á hinum ýmsu fiskum.

Ferðin sem við vorum að koma úr heppnaðist frábærlega þrátt fyrir erfiðustu aðstæður. Við veiddum mjög vel og erum tilbúin í næstu ævintýraferð eftir aðeins fáeinar vikur.

Ég myndi mæla með því við alla íslenska veiðimenn að prófa þessa frábæru veiði. Þetta kemur ekki í staðinn fyrir yndislega veiði hér heima á sumrin heldur er þetta kærkomin viðbót því þessa veiði getum við stundað í myrkasta skammdeginu þegar leiðinlegustu veðrin geysa hér.

Við erum búin að stunda “saltwater” veiði í mörg ár og höfum veitt á öllum helstu stöðum í 6 heimshálfum svo allir sem eru áhugasamir um þessa veiði eru velkomnir til okkar í Veiðihornið til þess að leita eftir upplýsingum og fá góð ráð hjá okkur Óla."

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert