Stofnfundur Fluguveiðifélags Suðurnesja var haldinn síðastliðið mánudagskvöld að viðstöddum fimmtíu stofnfélögum af Suðurnesjum. Félagið ber vinnuheitið Fluguveiðifélag Suðurnesja þar til kosið verður um nafn til frambúðar á aðalfundi félagsins sem haldinn verður eftir sex vikur.
„Markmið félagsins er að halda úti félagsstarfssemi tengdri stangveiði og útvega félagsmönnum veiðileyfi á betri kjörum en ella, en megin áhersla verður á fluguveiði, virðingu fyrir náttúru og dýrum, sem og að halda úti öflugu félags og fræðslustarfi sem eflir hróður Suðurnesjamanna innan stangveiðinnar á Íslandi,“ segir í tilkynningu frá nýstofnuðu félagi.
Kosið var til formanns og stjórnar, en formaður var kjörinn Styrmir Fjeldsted, en með honum í stjórn sitja Alfreð Elíasson, Aníta Carter, Brynjar Þór Guðnason, Bjarki Már Viðarsson, Marel Ragnarsson og Trausti Arngrímsson.
Í tilkynningu frá félaginu er vitnað í nýkjörinn formann. „Eftir að hafa átt mörg samtöl við fólk á Suðurnesjunum var það klárt mál að vöntun væri á slíkum félagsskap, sjálfur hef ég í þó nokkur ár verið að væflast hingað og þangað í veiði en aldrei fundið minn flöt innan hóps tengdum stangveiðinni hér á þessu svæði, hvort sem það sé að manna holl í veiði, eða jafnvel bara að hittast og spjalla, hnýta nokkrar flugur eða segja veiðisögur til þess að stytta dimmustu daga ársins yfir veturinn þegar maður er ekki við bakkann.
Með stofnun félagsins stefnum við á að halda uppi öflugu félagsstarfi og hinum ýmsu viðburðum eins og kastkennslu, fluguhnýtingarkvöld, veiðistaðakynningum ásamt mörgu öðru sem er í bígerð.
Framtíðarmarkmið félagsins verður svo að taka ársvæði að leigu innan fáeina ára frá stofnun. Allir eru velkomnir í félagið og munu félagsgjöld verða ákveðin á næstkomandi aðalfundi. Töluvert er um nýskráningar af félögum ofan á þann fjölda meðlima sem létu sjá sig á stofnfundinum,” sagði Styrmir Fjeldsted formaður Fluguveiðifélags Suðurnesja.
Fróðlegt verður að fylgjast með félaginu en innan hópsins eru landsþekktir veiðimenn á borð við þá Örlygsbræður og raunar má segja að fyrrverandi körfuboltamenn úr Njarðvík séu hátt hlutfall stofnenda.
Í samtölum við stjórnarmenn kom einnig fram að fyrsta verkefnið, veiðilega séð verður að kaupa stök holl fyrir félagsmenn og manna þau.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |