Reykjadalsá veidd að Svarthöfða

Giljafoss, efsti veiðistaður í Reyjadalsá. Á nýrri heimasíðu sem heldur …
Giljafoss, efsti veiðistaður í Reyjadalsá. Á nýrri heimasíðu sem heldur utan um veiðileyfasölu fyrir Reykjadalsá má sjá hin nýju veiðimörk fyrir ána. Snorrastofa

Ný heimasíða hefur verið tekin í gagnið fyrir Reykjadalsá í Borgarfirði, reykjadalsa.is. Þar fer fram öll sala á veiðileyfum. Veiðisvæðið nær nú alveg niður að Svarthöfða í Hvítá og gerðist það samkvæmt dómsúrskurði, en áralangar deilur hafa staðið um svæðið.

Með dómsúrskurðinum bættist við um hálfur kílómetri af veiðisvæði og er þar að finna ónefndan veiðistað sem oft gefur fisk í göngu. Veiðimörk má sjá á korti á heimasíðunni.

Greinagóða veiðistaðalýsingu er að finna á nýju heimasíðunni og tekur lýsingin til þrjátíu veiðistaða. Það verður að segjast að lýsingin er býsna heiðarleg. Þannig er skrifað um veiðistaðinn Þúfukvörn. „Það er frekar langt að ganga þangað því það er nánast ómögulegt að komast þarna á bíl. Staðurinn er varla erfiðisins virði.“ Svona lýsingu sér maður ekki oft en það er nokkuð ljóst að ekki munu margir leggja þetta erfiði á sig, hafandi lesið þetta.

Holger Gíslason með fyrsta laxinn sem veiddist í Reykjadalsá sumarið …
Holger Gíslason með fyrsta laxinn sem veiddist í Reykjadalsá sumarið 2021. Holli fékk þennan í Bæjarfljóti sem er einn af neðstu veiðistöðunum. Áin er oft lituð af Hvítá þarna niður frá. Ljósmynd/reykjadalsa.is

Óskar Rafnsson er einn af landeigendum að Reykjadalsá og hefur hann tekið miklu ástfóstri við ána. „Mér finnst mjög gaman að veiða hana. Eftir því sem við höfum lært meira á hana gengur okkur betur og betur. Auðvitað er hún búin að vera í nokkurri lægð og tengir maður það helst við þurrkana miklu sem urðu sumarið 2019. Reykjadalsáin er mjög róleg framan af sumri og þá er helst veiði neðst í henni en þegar líður fram á síðari hluta sumars og við fáum góðar rigningar þá geta gerst þarna ævintýri. Mér fannst ég sjá mun betri stöðu í henni í fyrra og er því bjartsýnn fyrir sumarið,“ sagði Óskar í samtali við Sporðaköst.

Viktoría Sólveig Stephensen með fallegan smálax úr Klettsfljóti.
Viktoría Sólveig Stephensen með fallegan smálax úr Klettsfljóti. Ljósmynd/reykjadalsa.is

Hann bendir á að Klettsfljótið sem er neðarlega í ánni sé sterkasti veiðistaðurinn á hverju sumri. Meðalveiði á ári síðastliðin tuttugu ár, í Reykjadalsá er 176 laxar en mesta skráða veiði á því tímabili var árið 2013 þegar 297 laxar voru færðir til bókar. Sjóbirtingsveiði hefur farið vaxandi síðustu ár, eins og víða þekkist á Vesturlandi. Von er á silungi víða um ána allt sumrið.

Nýtt veiðihús verður tekið í notkun næsta sumar en í sumar er veiðihúsið sem fyrr A bústaður skammt frá félagsheimilinu Logalandi.

Segja má að Reykjadalsá sé enn af „gamla skólanum“ en þar er veitt bæði á flugu og maðk og er kvóti á stöng tveir laxar á dag. Veitt er á tvær stangir í ánni og því rúmt um veiðimenn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert