Veiðiklærnar, Einar Páll Garðarsson og Jóhannes Þorgeirsson hafa opnað veiðiverslun á netinu undir nafninu Veiðikló. Upphaflega var félagið stofnað um sölu á veiðileyfum, á svæðinu Gíslastaðir í Hvítá í Árnessýslu.
Því svæði og ekki síður verðlagningu á því hefur verið afar vel tekið og besta dæmið er það að svæðið er uppselt fyrir sumarið sem er framundan.
Þeir félagar hafa nú fært út kvíarnar og hafa opnað heimasíðuna veidiklo.is. Þar bjóða þeir til sölu margs konar varning sem tengist fluguveiði. Hæst ber þó á síðunni flugurnar hans Palla.
Einar Páll hefur hannað margar magnaðar veiðiflugur í gegnum árin og verða þær til sölu á síðunni. Bara til að nefna nokkrar sem hafa gefið vel í gegnum árin má nefna flugur eins og, Leifur, Sjáandinn, Brá, Tvíburinn, Stóri bróðir og Dísa. Palli sagði í samtali við Sporðaköst að fleiri flugur ættu eftir að koma inn á síðuna.
Í viðtali sem birtist í Veiðimanninum fyrir margt löngu var Palli spurður út í flugurnar sínar. Hluti af svarinu var á þessa leið, „Þegar ég hef verið að hnýta flugur þá hef ég fyrst og fremst reynt að ímynda mér hvernig fiskurinn sér þær en ekki hvernig við mannfólkið sjáum þær í vatninu.“ Hér var Palli að vitna til flugu sem heitir Brá og hefur þótt einkar veiðin í sól og við erfiðar aðstæður.
Því ber að fagna að þessar flugur verði nú til sölu en eitthvað er um flugur sem hinn almenni veiðimaður hefur lítið eða ekki séð fram til þessa. Mesta úrvalið af flugum úr smiðju Palla hefur verið að finna í Veiðihorninu í Síðumúla en nú mun bætast í þessa flóru.
Þeir félagar eru vonast eftir góðum viðtökum en fyrir utan flugur sem Palli hefur sjálfur hannað er einnig að finna úrval af öðrum flugum sem Palli mælir sérstaklega með. Þar er að finna ýmsar klassískar flugur.
Flugustangir, hjól og línur eru einnig til sölu hjá Veiðikló. Palli rak Veiðihúsið um langan tíma og var þá að selja veiðivörur af ýmsum toga. Nú er hann aftur kominn í bransann og eins og hann segir sjálfur. „Veiðin er í beinunum á mér og ég get ekki hugsað mér neitt skemmtilegra en að stússa í kringum þetta.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |