Föstudagurinn 1. apríl er upphaf veiðitímans í stangveiði. Þá opna margar af sjóbirtingsánum og í nokkrum vötnum má byrja að veiða. Það eru nokkur vötn sem eru opin allt árið og eru þar á meðal Gíslholtsvatn, Urriðavatn við Egilsstaði og Hlíðarvatn í Hnappadal. Síðan má nefna þau vötn sem heimillt er að veiða í eftir að ísa leysir. Á heimasíðu Veiðikortsins eru nefnd til sögunnar í þessum flokki, Baulárvallavatn á Snæfellsnesi, Hraunsfjarðarvatn á Snæfellsnesi og Sauðlauksdalsvatn við Patreksfjörð.
Höfuðborgarbúar geta tekið fram veiðigræjurnar og haldið til veiða í Vífilsstaðavatni á föstudag. Það er hluti af úrvali Veiðikortsins. Önnur vötn sem opna 1. apríl eru; Hraunsfjörður á Snæfellsnesi, Syðridalsvatn við Bolungarvík, Vestmannsvatn, Þveit við Hornafjörð og eins og fyrr segir Vífilsstaðavatn.
Þegar líður á mánuðinn bætast við spennandi áfangastaðir fyrir veiðimenn. Kleifarvatn opnar 15. apríl og þann 19. má kasta í Meðalfellsvatn. Daginn eftir opnar svo Þingvallavatn, sá hluti sem er innan vébanda Veiðikortsins, eða þjóðgarðurinn sjálfur. Fyrir marga er opnun Elliðavatns dagsetning sem beðið er eftir með tilhlökkun. Sumardaginn fyrsta eða 21. apríl má byrja að veiða þar.
Tugir ef ekki hundruð veiðimanna eru að gera sig klára fyrir vorveiði í sjóbirtingi. Þær ár sem opna á föstudag eru meðal annars, Tungulækur, Tungufljót, Eldvatn og Geirlandsá fyrir austan. Þá er Varmá að opna sama dag og ekki má gleyma þeirri litlu en knáu Leirá þar sem vorveiðin hefur farið af stað með hvelli síðustu vor.
Litlaá í Kelduhverfi gefur alltaf magnað veiði fyrstu dagana og þar gæti orðið veiðifjör um helgina. Sjóbirtingsveiði hefst í Eyjafjarðará en í henni eins og svo mörgum ám hefur fiskur farið stækkandi og honum fjölgað. Bæði er birtingurinn að sækja í veðrið um land allt en veiða og sleppa fyrirkomulagið er að virka einstaklega vel þegar kemur að sjóbirtingi.
Húseyjarkvísl opnar á föstudag og þar munu reynsluboltar takast á við aðra bolta ef að líkum lætur. Leirvogsá og Minnivallalækur eru líka á dagskrá og að minnsta kosti hluti Sogsins og verður spennandi að sjá hvort hlussubleikjurnar verða vaknaðar af vetri þar. Sjálfsagt eru einhverjir veiðistaðir að gleymast hér en stóra fréttin er sennilega sú að veðurspáin er einkar hagstæð miðað við árstíma. Rauðar tölur um land allt fyrstu dagana. Ekki háar tölur en þær eru rauðar. Tæpast mun því frjósa í lykkjum þessa helgina þó að það geti hæglega gerst síðar í mánuðinum. Allt útlit er sem sagt fyrir spennandi fyrstu helgi í veiði þegar nýtt veiðitímabil verður formlega flautað á.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |