Veiðigyðjan hefur mismikla velþóknun á veiðimönnum. Hann Maros Zatko nýtur sérstakrar blessunar. Hann hafði klukkutíma aflögu í dag og var boðinn að koma í Ásgarðslandið í Skaftá. Lítið hafði veiðst en Maros var með góða tilfinningu fyrir bæði deginum og staðnum. Fyrsta sjóbirtinginn sinn fékk hann einmitt á þessum slóðum.
„Ég var með tvíhenduna mína og byrjaði efst á svæðinu og veiddi mig niður. Það er enginn hylur sem er neðan við Tungulækinn, eins og oft hefur verið, þar sem torfa af fiski heldur sig. Birtingurinn er meira bara á ferðinni um svæðið. Ég valdi flugu sem ég taldi líklega og var með intermediate línu sem er hægsökkandi og með sökkenda. Ég var ekki að strippa fluguna neitt. Bara kastaði og lét hana reka að landi. Eftir tíu mínútur fékk ég hörku töku,“ sagði Maros í samtali við Sporðaköst.
Hann þakkar sínum sæla að hann skyldi vera með tvíhenduna í baráttu við þennan fisk. Það tók Maros um tuttugu mínútur að ná þessum fiski að landi þannig að mögulegt væri að sporðtaka hann. „Ég var svo að vona að hann næði hundrað sentímetrum en það var ekki þannig. Hann var rúmir 98 og þetta er stærsti sjóbirtingur sem ég hef veitt,“ sagði Maros. Strax að loknu ævintýrinu þurfti hann að hverfa til annarra verka.
Maros hefur í tvígang komist í fréttir á Sporðakastasíðunni, einmitt fyrir stórfiska. Hann var leiðsögumaður manns sem landaði 100 sentímetra birtingi í Tungulæk. Sjálfur landaði hann 101 sentímetra laxi í lok júní í fyrra í Eystri–Rangá.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |