Það hefur verið líflegt á bleikjumiðum í Ásgarði í Soginu þessa fyrstu daga í apríl. Þrír ungir en reynslumiklir veiðimenn hafa átt þar góðar stundir. Þeir Gunnlaugur Gunnlaugsson, Óttar Finnsson og Tómas Firth veiddu Ásgarð á opnunardaginn og lönduðu ellefu bleikjum.
Þeir félagar skutust aftur austur fyrir fjall í gær og voru mættir um miðjan dag. "Við vorum byrjaðir að veiða um klukkan eitt og settum strax stefnuna á Ásgarðsbreiðuna. Þetta byrjaði með látum. Við settum í þrjár boltableikjur bara á fyrstu fjörutíu mínútunum. Voru allar mjög flottar. Eftir þetta fórum við niður úr og reyndum þar sem Sogið rennur í Álftavatnið,“ sagi Gunnlaugur í samtali við Sporðaköst.
Neðri hlutinn gaf þeim félögum fimm bleikjur og allar vænar. Ein var þó sýnu stærst. Gunnlaugur veiddi hana á púpuna Rainbow Warrior en var ekki með málband til að fá nákvæma lengd. Hann giskaði á fimm, jafnvel sex pund.
„Það var smá gjóla á okkur þegar við mættum og lofthiti var þrjár gráður. Svo fór að snjóa á okkur á fjórða tímanum. En það sem skipti mestu máli var að það var lítill vindur. Árni Baldursson hefur allavega sagt að ef fer að hvessa þá hætti bleikjan að taka.
Fyrir utan þessa stóru þá komu allar sem ég tók, á litlar Pheasant Tail púpur. Stærðir tólf til sextán.“
Þeir félagar stunduðu svæðið mikið síðasta vor og segir Gunnlaugur að bleikjan sem þeir voru að veiða núna hafi verið stærri en í fyrra. „Við vorum að sjá þessar stóru í fyrra á þessum tíma en þær voru ekki að taka. Nú voru þetta miklu stærri bleikjur sem við vorum að veiða,“ sagði Gunnlaugur.
Litirnir á þessum bleikjum eru ótrúlegir. Sterki appelsínuguli liturinn gerir þessa fiska alveg hreint geggjaða svo vitnað sé í lýsingu Gunnlaugs.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |