Nýr leigutaki tekur við Breiðdalsá

Frá fossinum Beljanda í Breiðdalsá. Nýr leigutaki tekur við ánni …
Frá fossinum Beljanda í Breiðdalsá. Nýr leigutaki tekur við ánni á næsta ári. Það er félagið Ripp Sporting sem Peter Rippin á. Ljósmynd/Strengir

Peter Rippin eigandi Ripp Sporting hefur undirritað tíu ára leigusamning við veiðifélag Breiðdalsár. Félagið tekur við ánni á næsta ári en Strengir ehf, félag Þrastar Elliðasonar er með Breiðdalsá á leigu í sumar.

Ripp Sporting er í eigu Peter Rippin og er félagið nú þegar með umfangsmikla starfsemi á Suðurlandi og leigir Eystri – Rangá, Affallið og Þverá. Félagið Kolskeggur sér um sölu og rekstur á veiðisvæðunum.

Peter Rippin staðfesti í samtali við Sporðaköst að samið hefði verið um leigu á vatnasvæðinu frá 2023 til og með 2032. Hann sagðist mjög spenntur fyrir þessu verkefni en ljóst væri að miklar áskoranir biðu áður en Breiðdalsá næði aftur flugi.

„Breiðdalsá er ótrúlega falleg og ég veit að margir breskir og íslenskir veiðimenn eiga góðar minningar þaðan. Við vitum að þetta mun taka tíma enda byggir veiðin fyrst og fremst á seiðasleppingum ársins á undan. Breiðdalsá er virkilega ólík til dæmis Eystri – Rangá og passar þess vegna vel við það sem við erum nú þegar að bjóða okkar viðskiptavinum. Nýr og ólíkur valkostur,“ sagði Peter í samtali við Sporðaköst.

Peter Rippin með einn af þeim stóru úr Yokanga í …
Peter Rippin með einn af þeim stóru úr Yokanga í Rússlandi. Þessi veiddist í veiðistaðnum Lyliok árið 2014. Peter er hokinn af reynslu þegar kemur að rekstri veiðisvæða. Ljósmynd/Ripp Sporting

Breiðdalsá hefur svo sannarlega séð tímana tvenna. Veiðin tók stökk þar sumarið 2004 og veiddust þá 700 laxar í henni. Veiðin var góð fram til ársins 2012 að hún datt niður og er nú svo komið að hún skilaði aðeins 77 löxum í fyrra. Veitt er á sex stangir í Breiðdalsá. Töluverð silungsveiði er á vatnasvæðinu og er það bæði bleikja og urriði.

Best var veiðin árið 2011 þegar 1.430 laxar veiddust. Árið 2010 gaf hún 1.178 laxa. 

Þröstur Elliðason byggði upp veiðina í Breiðdalsá og tókst vel til á þeim árum sem vitnað er til hér að ofan. Spennandi verður að sjá hvort Peter Rippin og hans teymi tekst að endurvekja Breiðdalsána en ljóst er að það mun taka nokkur ár í það minnsta.

Þröstur Elliðason staðfesti þetta í samtali við Sporðaköst og segir málið allt hafa verið unnið í góðu samráði milli aðila og veiðifélags Breiðdæla. Hann tekur fram að hann hafi átt gott samstarf við veiðifélagið og allar líkur séu á því að áfram verði samstarf við nýja leigutaka og verkefnið framundan sé spennandi. Hann vildi að lokum nota tækifærið og þakka veiðifélaginu og öðrum sem komið hafa að verkefninu í gegnum árinu fyrir samstarfið.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert