Þeir félagar Steinþór Jónsson og Robert Nowak við þriðja mann lentu heldur betur í veiðiveislu í Vatnamótunum í gær. Þeir hófu veiðar um klukkan þrjú og þegar Sporðaköst náðu tali af Steinþóri á níunda tímanum í gærkvöldi voru þeir búnir að landa um þrjátíu fiskum og missa annað eins.
„Við erum að fara að hætta. Það er bara svo erfitt. Veðrið er svo fallegt," sagði Steinþór Jónsson í samtali við Sporðaköst.
Eru þið ekki að drepast úr kulda?
„Nei. Það er búið að vera mjög hlýtt í dag en sólin er orðin býsna lágt og þá er stutt í frostið. Það er aðeins byrjað að frjósa í lykkjum en við erum búnir að vera í þvílíku bingói hér í dag. Ég held að við séum samtals komnir með um þrjátíu fiska. Þetta er þvílíka veislan.“
Eins og sjá má á myndunum sem Steinþór tók og fylgja fréttinni var stafalogn á þeim félögum og sunnlenska sólin var í essinu sínu.
Steinþór sagði að töluvert hátt hlutfall af aflanum væri sterkur og spikfeitur geldfiskur, en svo væru stærri innan um. Stærst voru þeir félagar búnir að fá tvo fiska um 75 sentímetrana. Veiðin var mest á straumflugur með sökklínu. Hvítar og svartar straumflugur, Black Ghost og hefðbundið úrval á þessum slóðum fyrir þennan fisk. Nokkrir létu líka glepjast af púpum.
„Við erum búnir að vera að finna nokkrar torfur og þá er maður í bingó í smá tíma en svo þarf að fara og leita. Þetta er búið að vera mögnuð fyrsta vakt.“
Hann sagði komnar þrjár eða fjórar blaðsíður í veiðibókina. Hver blaðsíða geymir 25 fiska þannig að Vatnamótin eru komin að lágmarki með hundrað fiska það sem af er og ljóst að þeir félagar eiga eftir að bæta hraustlega við verði aðstæður áfram með þessum hætti.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |