Fengu 300 kílóa túnfisk á Tenerife

Reynir mættur í stólinn og tekst á við stóra bláuggan …
Reynir mættur í stólinn og tekst á við stóra bláuggan sem reyndist vera 300 kíló. „Við vorum allir búnir eftir þetta," sagði Reynir. Ljósmynd/RS

Mikill fjöldi Íslendinga dvelur nú á Tenerife og öðrum sólríkum eyjum á suðrænum slóðum. Sporðaköst vita til þess að fjölmargir veiðiáhugamenn eru í þeim í hópi. Þeir þurfa sko ekki að örvænta að komast ekki í veiði.

Reynir M. Sigmundsson veiðileiðsögumaður er einn þeirra sem nú freista þess að skipta um lit á Tenerife. En það getur verið tilbreytingalaust að sóla sig dögum eða vikum saman. Reynir og nokkrir félagar tóku sig því saman og leigðu sér túnfiskbát og vildu komast í veiði. Þeir fóru sex saman og kostaði fjögurra klukkustunda veiðitúr 93 evrur á mann, eða rétt rúmar þrettán þúsund krónur á gengi dagsins. Innifalið í upphæðinni var nesti. Samlokur, snakk, gos og bjór.

„Við tókum allan bátinn. Það er líka hægt að kaupa sér bara pláss og lenda þá með einhverjum sem maður þekkir ekki. Þá kostar túrinn 64 evrur.

Það tók þá félaga tæpa tvo tíma að ná túnfisknum …
Það tók þá félaga tæpa tvo tíma að ná túnfisknum upp að bátnum. Þá er losað úr honum og honum sleppt. Ljósmynd/RS

Það er misjafnt hversu langt út þeir sigla. Heimstímið hjá okkur var einhverjar tuttugu mínútur og stundum er túnfiskurinn bara rétt fyrir utan á jafnvel bara fimmtán metra dýpi en það getur líka þurft að sækja hann niður á allt að tvo kílómetra,“ sagði Reynir í samtali við Sporðaköst um ævintýrið.

„Við byrjuðum á að fara og veiða makríl því að þeir vilja hafa hann til að lokka túnfiskinn að ef hann er að stökkvað í yfirborðinu. Við fengum nokkra makríla og héldum svo lengra út. Við vorum með tíu stangir úti og það er verið að trolla þetta á eftir bátnum. Við komum að stórri höfrungavöðu sem var að éta og þar sáum við líka túnfiska stökkva. Við sigldum í gegnum þetta og skyndilega söng í einu hjólinu. Það söng sko af alvöru og þá þurfti að hlaupa til og draga inn allar hinar stangirnar svo þetta myndi ekki flækjast í línunni. Við náðum því sem betur fer."

Skipstjórinn á bátnum stendur á hæsta punkti og sér vel yfir. Þeir voru búnir að kippa nokkrum sinnum og fara fram og til baka yfir staðinn þar sem líklegast var að túnfiskurinn, bláuggi héldi sig.

Sigmundur G. Sigurðsson, pabbi Reynis tekur á því. Allir fengu …
Sigmundur G. Sigurðsson, pabbi Reynis tekur á því. Allir fengu að takast á við túnfiskinn. Ljósmynd/RS

„Þetta var soldið vígalegt. Það fór allt á milljón. Allir búnir að vera slakir og bara fá sér kaldann. En nú þurfti að vinna og þetta voru engin smá átök. Maður var settur í sætið og strappaður niður. Við skiptumst á að vera í sætinu. Og þetta er ekkert smá tog frá þessum skepnum. Annar eða báðir gædarnir voru með okkur á stönginni. Ég var númer tvö í stólinn og þá var eins og hann gæfi sig aðeins og synti til okkar. Ég sá að línan skipti litum, eins og þetta væri skothausinn eða eitthvað slíkt. Þannig að ég kallaði að fleiri skyldu prófa. Skipstjórinn áttaði sig á hvað ég var að meina þó að ég segði það á íslensku. Hann fór að hlæja og sagði mér að vera rólegum. Þetta litamerki þýddi að það var kílómetri úti af línu.“

Það fengu allir að reyna sig við þennan stórvaxna túnfisk. Reynir telur að þeir hafi ekki mátt vera færri en sex. Hann segir að menn hafi verið alveg búnir á því eftir átökin þegar skipt var um mann í stólnum.

„Þetta eru ekkert eðlileg átök. En leiðsögumennirnir voru búnir að segja okkur að á þessum tíma er hefðbundin stærð tvö til fjögur hundruð kíló. Við sex með aðstoð þessara tveggja leiðsögumanna vorum hátt í tvo klukkutíma að ná þessum fiski inn. Við gátum ekki tekið hann um borð enda þarf að sleppa þeim öllum. Þeir áætluðu að þessi hefði verið um þrjú hundruð kíló, plús mínus.“

Hér er það Sturla Magnússon sem á leik.
Hér er það Sturla Magnússon sem á leik. Ljósmynd/RS

Styrkleiki línunnar er gefinn upp fyrir tæp fimm hundruð kíló og veitir ekki af. Reynir og félagar eru að velta fyrir sér að fara aftur, en eins og hann orðaði það þá eru menn enn dasaðir eftir átökin. Og fljót flýgur fiskisagan. Fleiri veiðimenn höfðu heyrt af þessu og höfðu samband við Reynir til fá upplýsingar um að komast í svona veiði.

Auðveldast er að fara inn á fishingbooker.com eða hreinlega googla No Limits Tenerife fishing. Þá koma upp möguleikar á nokkrum útgerðum. 

Leiðsögumaðurinn kyssir bláuggann bless og þakkar fyrir sig.
Leiðsögumaðurinn kyssir bláuggann bless og þakkar fyrir sig. Ljósmynd/RS

„Við vorum einmitt að ræða það eftir túrinn í gær að einn fiskur var alveg nóg og við fengum allt út úr honum sem hægt var að biðja um. Tveir af þeim sem voru með okkur höfðu aldrei farið að veiða áður og þetta er klárlega fyrir alla.

Svo höfðum við líka mjög gaman af því að allir um borð voru að rjúfa tuttugu punda múrinn og fóru um sex hundruð pundum fram yfir hann,“ sagði kátur og sólbakaður Tenerifefarinn Reynir að lokum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert