Vorveiðin á Norðurlandi hefur æði misjöfn í aprílmánuði, eins og gefur að skilja. Þegar veðrið hefur brosað við veiðimönnum hefur ekki staðið á veiðinni. Matthías Þór Hákonarson hefur verið með hóp erlendra veiðimanna fyrir norðan um hátíðirnar.
„Við byrjuðum þann þrettánda og vorum þá í hífandi roki fyrstu tvo dagana. Þá var þetta erfitt en svo lagaðist veðrið og þetta er búið að vera æðislegt síðan,“ sagði Matti í samtali við Sporðaköst.
Einn af þeim stöðum sem hópurinn hefur veitt er Mýrarkvíslin. Þar hefur veiðin á köflum verið hörkugóð. „Veiðin í kvíslinni hefur verið að kikka vel inn. Hún er vatnsmikil og hefur verið að ryðja úr bökkum. Enda sjáum við það að ánamaðkurinn vellur út úr fiskinum. Hann er að éta á fullu ánamaðkinn sem er að lenda í ánni þegar brotnar út bökkunum.
Við reyndum að veiða með klassískum aðferðum en það skilaði engu. Svo fórum við Squirmy Wormy og þá fór allt í gang.“
Alþekkt er að silungur og jafnvel niðurgöngufiskur hámar í sig ánamaðk á þessum tíma árs. Það hefur líka í gegnum áratugina verið það agn sem flestir fiskar hafa verið veiddir á.
Hópurinn hans Matta hefur líka veitt í Brunná og var einmitt staddur þar þegar Sporðaköst náðu tali af þeim köppum. Matti segir að Brunnáin hafi oft verið betri en nú í vor. „Það er búið að vera skrítið veðurfar og til dæmis núna er hún töluvert lituð hérna neðst. Við höfum bara verið að kroppa einn og einn fisk bæði upp frá og líka hérna niður frá. Það er bara alls ekki búið að vera neitt bingó hérna. Við fengum þó einn stóran áðan og það var mjög flottur fiskur sem mældist 66 sentímetrar.“
Hann segir að urriðinn sem þeir hafa verið að veiða í Laxá í Aðaldal og Mýrarkvíslinni hafi verið þetta frá 40 upp í 55 sentímetra. „Þetta eru svona ekta staðbundnir og vænir urriðar. Fiskurinn er að jafnaði aðeins smærri efst í Mýrarkvíslinni og að hluta er hún enn undir ís en það getur verið fljótt að breytast í svona veðri. Við sáum þrettán gráður á mælinum í Öxarfirði í gær."
Nokkur urriðasvæði ofarlega í Laxá opnuðu um mánaðamótin. Veiði í Presthvammi og Syðra–Fjalli byrjaði þá og fór vel af stað. Veiðibækurnar fyrir þessi svæði er að finna undir fluguveidi.is og velja veiðitölur. Matti segir að menn þurfi að passa að færa veiðina til bókar eftir að veiðidegi lýkur. Nú eru komnar spjaldtölvur í húsin og ætti því að vera lítið mál fyrir veiðimenn að skrá aflann. Skráning á afla var með lakasta móti í fyrra, og segir hann nauðsynlegt að bæta úr því.
Lítið hefur verið farið í Reykjadalsá enn sem komið er. Nokkrir urriðar veiddust þar í byrjun en ástundun verið lítil.
En er þetta þokkalegt vor sýnist þér?
„Já. Mér finnst það. Það var ekki svo mikill snjór hérna og hann er mikið til farinn. Það er enn ís á Mýrarkvíslinni frá laxastiga og nokkuð uppeftir. Árnar eru enn frekar kaldar, ekki meira en þrjár gráður en við höfum ekki fengið nein ofsaflóð af því að snjórinn var með minna móti. Auðvitað hafa þær verið vatnsmiklar, bæði Laxáin og Mýrarkvíslin, en engin stórflóð.“
Ertu að mæla mikinn áhuga meðal veiðimanna og þá sérstaklega frá útlöndum?
„Já. Þetta er meira en það hefur nokkurn tíma verið. Það er greinilegt að ferðaþörfin var uppsöfnuð og við erum búin að selja mjög vel og mér sýnist þetta vera að komast á sama ról og þetta var fyrir Covid. Það er mjög gaman að geta verið að taka á móti hópum frá útlöndum í apríl. Við höfum ekki getað það síðustu tvö ár. Þannig að þetta er mjög jákvætt.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |