Veiði- og sumarstemning við Elliðavatn

Fullkominn morgun. Veiði, sumardagurinn fyrsti og gott veður. Ásgeir, Ástráður …
Fullkominn morgun. Veiði, sumardagurinn fyrsti og gott veður. Ásgeir, Ástráður og Alfreð tóku daginn snemma við Elliðavatn. Ljósmynd/Veiðikortið

Það var sumarleg útgáfa af sumardeginum fyrsta sem boðið var upp á við Elliðavatn í morgun. Lofthiti ellefu gráður og af og til lét sú gula virkilega finna fyrir sér. Tugir veiðimanna fögnuðu því að geta slökkt veiðiþorsta og voru mættir snemma í morgun. Einn af þeim lengra komnu horfði yfir gleraugun og sagði ábyrgðarfullur. „Þetta eru kjör aðstæður.“ 

Milan Tapalov tók þennan á maðk. Ekki amaleg byrjun á …
Milan Tapalov tók þennan á maðk. Ekki amaleg byrjun á degi. Þó nokkrum urriðum var landað í morgun. Ljósmynd/IB

Veiði hófst formlega í Elliðavatni í morgun og er það heimavöllur margra höfuðborgarbúa þegar kemur að stangaveiði. Morguninn var líka að gefa fiska. Helst var það að ánamaðkurinn væri að gefa og urriðarnir voru býsna fallegir.

Það var alvöru veiðistemning í loftinu. Þarna mátti sjá sérfræðinga, byrjendur og fólk á öllum aldri og af öllum kynjum.

Kári Steinn Örvarsson með flottan urriða úr Helluvatni, ofan Elliðavatns. …
Kári Steinn Örvarsson með flottan urriða úr Helluvatni, ofan Elliðavatns. Þessi á ekki langt að sækja veiðiáhuga. Hann er barnabarn Geirs Thorsteinssonar sem er nánast goðsögn við Elliðavatn. Ljósmynd/IB

Þeir Örn Hjálmarsson sem er hokinn af reynslu þegar kemur að fluguveiði, Ingimundur Bergsson umsjónarmaður Veiðikortsins og Jón Þ. Einarsson sem annast veiðieftirlit á svæðinu. Tóku stöðuna. „Ég man nú varla eftir svona flottu veðri, frá því að opnunin var færð fram,“ sagði Örn og viðstaddir tóku undir það. „Þeir fyrstu voru mættir klukkan hálf sjö,“ bætti Ingimundur við. Jón óskaði öllum gleðilegs sumars.

Þegar þeir voru spurðir hvort ekki væri bleikja í aflanum, litu Örn og Jón hvor á annan og brostu góðlátlega. „Hún mætir tíunda maí,“ sagði Örn. Jón kinkaði kolli. „Já. Þann tíunda.“

Klukkan hvað?

Þeir hlógu. Sögðu svo nær samtímis. „Snemma.“

Bleikjan mætir þann 10. maí. Þessi var veidd fyrir tæpu …
Bleikjan mætir þann 10. maí. Þessi var veidd fyrir tæpu ári í Elliðavatni. Hlussu bleikja sem Örn Hjálmarsson veiddi og einmitt í annari viku maí í fyrra. Þær eru nefnilega líka stórar í Elliðavatninu bleikjurnar. Ljósmynd/ÖH

Fjölmargir veiðimenn litu við á planinu við Elliðavatnsbæinn og viðkvæðið var oftast það sama. „Eitthvað verið að gerast?“ Þegar svarið var; „Já. Þetta byrjar bara ágætlega,“ mátti sjá veiðimenn greikka sporið og eftirvæntingin fór upp um nokkrar gráður.

Elliðavatn er hluti af Veiðikortinu ásamt svo mörgum öðrum áhugaverðum vatnasvæðum. Kortið kostar 8.900 krónur og er sennilega besta fjárfesting sem veiðimenn ráðast í. Inni á vef veiðikortsins er hægt að sjá þau veiðisvæði sem kortið veitir aðgang að. Hægt er að kaupa kortið á bensínstöðvum Olís og N1 og á netinu að sjálfsögðu.

Veiðimenn í morgun voru á öllum aldri.
Veiðimenn í morgun voru á öllum aldri. Ljósmynd/ES

Að lokum var lögð stór spurning fyrir sérfræðingagengið. Ef maður er með krakka, fjögurra ára plús og þarf að setja í fisk. Hverju mælið þið með?

Þeir voru sammála að best væri að vera með flugu og flotholt. Vera með fluguna svona meter frá flotholtinu og leyfa straumnum í vatninu bera þetta sína leið. „En ég myndi bíða nokkra daga. Fara svona í byrjun maí með þennan aldurshóp,“ sagði Örn og viðstaddir kinkuðu kolli. Þeir nefndu nokkrar púpur á nafn. Watson fancy, Birtu hans Palla og svo bara prófa eitthvað.

Þetta er reynslumikið borð. Ingimundur Bergsson, Örn Hjálmarsson í miðju …
Þetta er reynslumikið borð. Ingimundur Bergsson, Örn Hjálmarsson í miðju og Jón Þ. Einarsson veiðivörður. Þeir voru mættir snemma í morgun að taka stöðuna. Ljósmynd/ES

Þeir urriðar sem voru að gefa sig fengu sumir líf en aðrir áttu að fara á grillið. 

Veiðivötnin eru nú að opna eitt af öðru. Þjóðgarðslandið í Þingvallavatni opnaði í gær og þá eru Vífilsstaðavatn, Meðalfellsvatn og fleiri komin í gagnið. 

Sporðaköst óska öllum veiðiáhugamönnum gleðilegs veiðisumars.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert