Kastklúbbur Reykjavíkur býður enn eitt árið upp á flugukastkennslu fyrir einhendur. Námskeiðið hefst á sunnudag og er boðið upp á samtals sex kennslustundir og þar af tvær utandyra.
Þessi félagsskapur var stofnaður árið 1955 og hefur verið að allar götur síðan. Upphaflega hét klúbburinn Kastklúbbur stangaveiðimanna en nafninu var breytt á síðari stigum.
Sex kennarar eru á námskeiðinu og fer þar fremstur í flokki sá reynslumikli leiðsögumaður Árni Guðbjörnsson sem er að nálgast fertugt, þegar kemur að starfsafmæli. Theodór Sigurjónsson er að fylla þrjá áratugi í leiðsögumennsku. Ásamt þeim annast Ingvar Stefánsson, Grétar Guðnason, Gísli Guðmundsson og Guðmund Arnarson kennsluna. Í gegnum árinu hefur klúbburinn notast við aðstöðu í KR heimilinu og Laugardalshöll, en síðustu áratugi verið í TBR húsinu þar sem kennsla fer fram núna.
Námskeiðið er hentugt fyrir allar útgáfur fluguveiðimanna, hvort sem er byrjendur eða þá sem vilja fínpússa tæknina. Allt námskeiðið miðast við einhendur.
Hér að neðan er fréttatilkynning frá Kastklúbbi Reykjavíkur þar sem kemur fram fyrirkomulag, verð og tímasetningar og hvernig áhugasamir geta skráð sig.
„Kastklúbbur Reykjavíkur, í samstarfi við Veiðiflugur, býður upp á flugukastnámskeið fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Farið verður yfir öll atriði einhendukasta og er þetta því kjörið tækifæri til að afla sér góðrar þekkingar og auka færni sína.
Kennslan fer fram innanhúss í TBR húsinu, Gnoðarvogi 1, eftirfarandi sunnudagskvöld: 24. apríl, 1. maí, 8. maí og 15. maí. Í framhaldinu taka við tvær kvöldstundir þar sem kennt verður utandyra. Samtals eru þetta sex kvöldstundir. Kennslan fer fram frá kl. 20:00 til 22:00, en þátttakendur eru hvattir til að mæta tímanlega fyrsta kvöldið.
Gott er að hafa innanhússkó meðferðis. Kastklúbburinn útvegar stangir fyrir æfingar innanhúss til að hlífa flugulínunum, en þátttakendur mæta með eigin stangir í útikennslu. Starfsfólk Veiðiflugna mun veita ráðleggingar varðandi flugustangir, línur og tauma. Þá gefst þátttakendum m.a. tækifæri til að prófa spennandi flugustangir og flugulínur. Verðið er 22.000 kr. á mann og fer skráning fram á netfanginu kastkennsla@gmail.com.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |