Aðalfundur Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár samþykkti og undirritaði nýjan langtíma leigusamning við núverandi leigutaka, félagið Six Rivers Project. Samningurinn er til tíu ára með mögulegri framlengingu til fimm ára í viðbót. Fundurinn var haldinn í veiðihúsinu við Hofsá á laugardag.
Núgildandi samningur um leigu á Hofsá og Sunnudalsá var til ársins 2023. Í nýja samningnum er gert ráð fyrir verulegri samvinnu og samstarfi milli aðila og er þar kveðið á um uppbygginu á nýju veiðihúsi við Hofsá.
Félagið Six Rivers Project er félag breska auðjöfursins, James Ratcliffe og heldur það utan um þau ársvæði sem félagið ýmist á eða er með á leigu á Norðausturlandi.
Í kynningu á SRP segir að félagið sé ekki hagnaðardrifið heldur sé markmiðið að stuðla að verndun laxastofna á svæðinu og tryggja framgang laxins. Bent er á á heimasíðu félagsins að Atlantshafslaxinn eigi mjög undir högg að sækja og sé hreinlega útdauður í mörgum löndum þar sem áður voru heimkynni hans.
SRP hafði þegar upplýst um áætlanir sínar hvað varðar veiðihúsabyggingar og er þessi nýi samningur liður í þeim áformum, upplýsti Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri félagsins í samtali við Sporðaköst. Undirbúningur og hönnun á nýju veiðihúsi við Hofsá er þegar hafinn. Ekki liggur fyrir hvar nýja húsið mun rísa.
„Ég vil nota tækifærið og fyrir hönd Six Rivers Project þakka landeigendum við Hofsá og Sunnudalsá fyrir traustið sem þeir sýna okkur með því að samþykkja þennan samning um umsjón með þessari náttúruperlu,“ sagði Gísli.
Veiðin í Hofsá hefur sveiflast mikið síðustu árin. Síðasta sumar var veiðin 601 lax en árið 2020 var mjög gott í Hofsá og fór hún þá yfir þúsund laxa í fyrsta skipti frá árinu 2013. Lokatalan 2020 var 1.017 laxar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |