Var við veiðar í 21 dag í apríl

Matthías með lax úr opnun Urriðafoss í fyrra. Hann er …
Matthías með lax úr opnun Urriðafoss í fyrra. Hann er farinn að hugsa með spenningi til 1. júní. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson

Matthías Stefánsson Íslandsmeistari í júdó undir 21 árs og verðlaunaður rokkari sló sennilega öll met í veiði í nýliðnum apríl. Hann var við veiðar í hvorki meira né minna en 21 dag af þessum 30 sem apríl geymir. „Já. Það er nú eiginlega vandamál hvað ég hef gaman af að veiða. Ég eyði öllum mínum peningum í veiði og bara hugsa ekki um mikið annað,“ segir þessi fjölhæfi tvítugi strákur þegar hann er spurður hvort hann sé með mikla veiðidellu.

Í apríl fór hann í Leirá, Laxá í Kjós, Varmá, Eyjafjarðará, Hólaá, Ytri–Rangá og einnig skaust hann í vötnin á höfuðborgarsvæðinu. „Mér verður bara ekki kalt þegar ég er að veiða,“ svarar Matthías áminntur um að apríl hafi á köflum verið býsna kaldur. Hann heldur ekki nákvæma tölu um fjölda fiska sem hann veiðir. En hann segist kominn yfir hundrað sjóbirtinga í apríl, þegar allt er talið.

Með þann stóra úr Leirá í fyrra. 90,5 sentímetrar mældist …
Með þann stóra úr Leirá í fyrra. 90,5 sentímetrar mældist þessi vígalegi hængur. Matthíasi fannst magnað að veiða svo stóran fisk í þessari litlu á. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson

„Ég gerði bestu veiðina í Leirá í opnun og svo líka þegar við fjölskyldan fórum með afa í Eyjafjarðarána. Þetta voru frábærir túrar. Eyjafjarðaráin var svolítið hark en við vorum alltaf að setja í fiska af og til. Ég náði nokkrum í kringum 75 sentímetrana en fékk engan stærri en það. Svo vorum við náttúrulega í hörku veiði í Leiránni og ég man hreinlega ekki hvað ég fékk marga en þeir voru margir.“

Matthías kýs fyrst að nota straumflugu og flotlínu þegar hann er að veiða sjóbirting. Það finnst honum skemmtilegasta veiðiaðferðin. Hann viðurkennir hins vegar að flesta hefur hann fengið með því að veiða andstreymis. „Mér finnst það öflugasta veiðiaðferðin. Uppáhalds straumflugan mín er Black Ghost, Marabou og ég er hrifnastur af frekar litlum. Stærð tíu og þar í kring. Ef ég er með púpur þá nota ég mikið Krókinn og Pheasant Tail og útgáfur af henni. Ég er mest í þessu klassíska,“ upplýsir Matthías þegar hann er spurður um flugurnar sem hann notar mest í sjóbirtingnum.

Þrír ættliðir öflugra veiðimanna. Afi, Sigurður Gestsson, pabbi, Stefán Sigurðsson …
Þrír ættliðir öflugra veiðimanna. Afi, Sigurður Gestsson, pabbi, Stefán Sigurðsson og loks Matthías sem varð tvítugur í mars. Myndin var tekin í vor í Eyjafjarðará. Ljósmynd/Harpa

Hann segist halda mest upp á sjóbirtingsveiðina af öllum veiðiskap. En hann er líka með skýringu á því. „Ég stunda þá veiði mest. Það er líka bara af því að laxveiðin er svo dýr og maður getur lítið leyft sér að fara í hana. Uppáhalds veiðisvæðið mitt eins og stendur er Eyjafjarðaráin. Þá er ég að tala um neðstu þrjú svæðin. Ég þekki þetta minna uppfrá og hef ekki verið að stunda þau svæði.“

Stærsta birtinginn sinn veiddi hann í Leirá í fyrra. Það var hængur sem mældist 90,5 sentímetrar. „Þetta var svona „Fish of a lifetime“ og kannski ekki síst að veiða hann í Leirá. Það er alveg fáránlegt hvað þetta var stór fiskur í þessari litlu á.“

Þegar hann er spurður hvort það sé eitthvað svæði eða á sem hann dreymir um að veiða, en hefur enn ekki komist í er ekkert hik. „Mig langar rosalega mikið að veiða öll þessi Skaftársvæði í sjóbirtingi. Ég hef ekki veitt á þessu svæði og langar að prófa það. Tungufljótið, Eldvatnið, Tungulæk og fleiri svæði. Ég verð að fara að komast í þetta bráðum.“

Hann þekkir Varmá vel og er hér að undirbúa sleppingu …
Hann þekkir Varmá vel og er hér að undirbúa sleppingu á 65 sentímetra glæsilegum fiski. Ljósmynd/MS

Hann er sonur veiðihjónanna Stefáns Sigurðssonar og Hörpu Hlínar Þórðardóttur. Hann hefur því fengið gott og heilbrigt veiðiuppeldi. Ekki skemmir að afi fyrir norðan, Sigurður Gestsson vaxtarræktarkappi er landsþekktur veiðimaður. Strákurinn er mikið hæfileikabúnt. Eins og fyrr segir er hann Íslandsmeistari í júdó í undir 90 kílóa flokka og vann til silfurverðlauna á Judo Baltic Sea Championships mótinu í vetur. Það er gríðarsterkt mót þar sem þátttakendur mættu frá fjórtán löndum og er mikið afrek að vinna þar til silfurverðlauna í undir 21 árs flokki. Matthías var líka bassagítarleikari í rokkhljómsveitinni Blóðmör sem vann Músíktilraunir fyrir nokkrum árum. Hann er ekki í hljómsveit núna en; „Ef einhverjir myndu hafa samband og bjóða mér að vera með myndi ég alveg hugsa það.“

Fyrsta laxveiðiáin opnar eftir 27 daga og Matthías verður þar með foreldrum sínum sem reka fyrirtækið Iceland Outfitters sem er með hluta Þjórsár á leigu og þar á meðal hið þekkta svæði Urriðafoss. „Já. Ég er mikið farinn að hugsa um þá byrjun. Ég var með þeim í opnun í fyrra og það var mjög gaman. Ég er virkilega farinn að hlakka til.“

Eyjafjarðará í síðasta mánuði. Sjóbirtingsveiðin þar er uppáhalds þessa dagana …
Eyjafjarðará í síðasta mánuði. Sjóbirtingsveiðin þar er uppáhalds þessa dagana hjá Matthíasi. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson

Hann er með svo mikla veiðidellu að hann iðar í skinninu að byrja þegar komið er á veiðistað. Þá leiðist honum mjög þegar er eitthvað verið að kjafta og ekki byrjað strax. „Mér líður alveg rosalega eins og ég sé missa af einhverju og finnst það mjög erfitt.“

Ástæðan fyrir þessari spurningu var sú að undirritaður var viðstaddur opnun í Urriðafossi í fyrra og var þá að kjafta við Stefán og Hörpu. Það var ekki laust við að Matthías væri farinn að dæsa og tromma með fæti. Nennti greinilega ekki að bíða eftir þessu drolli. Mamma hans sagði þá í samtali við Sporðaköst að Matthías vildi alltaf vera allan veiðidaginn og þetta hefði orðið mun auðveldara eftir að hann fékk sjálfur bílpróf og var þá hægt að skilja hann eftir þegar þau nenntu ekki meiru. Hann staðfestir þetta og viðurkennir að hann vill klára daginn. „Ef það er einhver von um veiði þá þræti ég alveg ef einhver vill hætta fyrr. En ég er mikið að veiða með fólki sem er jafn veiðisjúkt og ég og það hentar vel.“

Í gær var hann í leiðsögn í Varmá með bandarískan og tælenskan veiðimann. Það var hark sagði Matthías en þeir náðu þremur fiskum. Veiðileiðsögnin er svona rétt að byrja og næsta verkefni er á sunnudag og þá fer hann aftur með útlendinga í Varmá.

Á bassagítarnum með Blóðmör. Hljómsveitin vann Músíktilraunir vorið 2019.
Á bassagítarnum með Blóðmör. Hljómsveitin vann Músíktilraunir vorið 2019. Ljósmynd/MS

Í sumar verður Matthías í fullu starfi sem leiðsögumaður við Ytri–Rangá. „Ég verð nánast allt tímabilið þar í leiðsögn og er orðinn mjög spenntur fyrir því.“ Stærsti laxinn hans til þessa er 95 sentímetra fiskur sem var sleppt aftur eftir magnaða viðureign.

Þegar Matthías er beðinn um að bera sig saman við pabba sinn og afa sem veiðimaður þá segir hann að pabbi sinn sé allavega enn þá, betri sem veiðimaður. „Þegar ég horfi á hann veiða þá fatta ég að hann er betri en ég. Samt líður mér stundum eins og ég sé betri en hann,“ hlær Matthías.

En hvað með afa? Betri en hann?

„Allavega í andstreymisveiði. En afi er rosalegur á straumflugunni. Það er stundum eins og hann sé ekki alveg viss hvað hann er að gera þegar hann er að kasta en hann fær alltaf fisk á straumfluguna. Bara alltaf. Svo er mamma líka mjög flink.“

Skotveiðin heillar hann ekki jafn mikið og stangveiðin. „Ég er ekki kominn með byssuleyfi. Er bara ný orðinn tvítugur þannig að það er ekki komið í hús. Ég hef farið nokkrum sinnum með pabba og finnst þetta alveg skemmtilegt en stangveiðin er alveg númer eitt hjá mér,“ segir þessi fjölhæfi veiðifíkill sem er nú þegar orðinn reynslumikill stangveiðimaður þó hann sé rétt að komast af táningsaldri. Það verður gaman að fylgjast með þessum strák í framtíðinni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert