Breyta úr netaveiði yfir í fluguveiði

Vitjað um net í Ölfusá í júlí sumarið 2017. Fjölmargar …
Vitjað um net í Ölfusá í júlí sumarið 2017. Fjölmargar netalagnir hafa nú verið aflagðar í Ölfusánni og í staðinn er það fluguveiði og skylduslepping á laxi í sumar. Golli

Nýtt tveggja stanga veiðisvæði í Ölfusá verður í boði fyrir veiðimenn í sumar. Svæðið er hluti af Selfossi og afmarkast að ofanverðu við sjúkrahúsið á Selfossi og neðri mörk liggja rétt neðan við kirkjugarðinn á Selfossi.

Á þessu svæði hafa verið nokkrar af gjöfulustu netalögnum á svæðinu. Netin eru ekki alfarið komin upp en áfram verður eitt net af og til lagt út frá Eyrinni neðst á veiðisvæðinu, þó aldrei um helgar. Ingólfur Ásgeirsson sagði í samtali við Sporðaköst að þetta væri afar spennandi tilraun og hann vonast til þess að þetta verði upphafið að því að Ölfusá verði fluguveiðiá, þar sem aðstæður bjóða upp á slíka veiði. Það er félagið Starir sem er með svæðið á leigu. „Við hvetjum veiðimenn til að fara varlega því þetta er mikið og varasamt fljót ef menn gæta ekki að sér. Kosturinn við þetta svæði er að sá bakki sem við erum með tilraunaveiðina á er hentugur til veiða og þar er miklu grynnra en við landið hinum megin. Við köllum þetta Austurbakkann og leyfin eru komin inn á veiða.is.“

Þegar nær líður veiðitíma munu Starir koma upp aðstöðu við veiðisvæðið, þar sem geymd verða björgunarvesti fyrir veiðimenn og veiðibók til að skrá afla. Allir veiðimenn eru hvattir til að nota björgunarvestin. Eingöngu verður leyfð veiði með flugu og skylduslepping er á öllum laxi.

Atli Gunnarsson er í forsvari fyrir landeigendur á svæðinu og einn af þeim netabændum sem hafa stundað netaveiði í Ölfusá frá barnæsku. Þegar hann er spurður um svæðið segir hann að best lögnin hafi verið við Ölfusárbrúna en hún hafi ekki verið í notkun undanfarin ár. „Það verður netalögn á Eyrinni eins og alltaf hefur verið. Við höfum ekki stundað netaveiði á svæðinu sem nú verður í boði fyrir stangveiði, í nokkur ár,“ sagði Atli í samtali við Sporðaköst.

Þegar hann er spurður hvort þetta sé ekki spennandi svæði fyrir stangveiðimenn segist hann ekki hafa hugmynd um það. „Ég er netaveiðimaður en ekki stangveiðimaður. En þeir sem eru að falast eftir þessu telja að þetta geti verið áhugavert svæði.“

En það er ekki bara lax sem gengur Ölfusána. Sjóbirtingur hefur í seinni tíð veiðst í ríkara mæli. „Frá árinu 2005 hefur þetta aukist alveg ofboðslega. Það er orðið alveg ofboð af sjóbirtingi nú orðið. Hann byrjar að ganga um mánaðamótin júní – júlí en laxinn fer að sjást mun fyrr. Þeir fyrstu eru að mæta í byrjun júní og mest er að ganga af honum upp úr miðjum júlímánuði.“ upplýsir Atli.

Nákvæm skrá hefur verið haldin um veiði á svæðinu og það allt frá árinu 1878. Þessar tölur og skráning á veiði eru mikill sögulegur fjársjóður. Þegar Atli er spurður hvort laxastofninn á svæðinu sé í jafnvægi telur hann svo vera. Hann segir náttúrulegar sveiflur ráða mestu. Hann vitnar í tvö ár máli sínu til stuðnings. „Sveiflurnar eru svo ofboðslegar. Selfossbæirnir skiptust á að veiða hver sína vikuna og sumarið 1886 skilaði 850 löxum. Ef við horfum svo á árið 1890, eða fjórum árum seinna, þá veiddust ekki nema 34 laxar. Þetta fer bara eftir náttúrunni og hvernig hún skilar laxinum í árnar aftur.“

Stangaveiði hefst á svæðinu síðari hluta júní og nokkru síðar hefjast netaveiðar á Eyrinni, neðst á svæðinu. Veiðimenn eru hvattir til þess að veiða ekki svæðið frá Ölfusárbrú og niður að kirkjugarði, en þar er mikið dýpi og erfitt um vik að komast að til að veiða á stöng.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert