„Það hefur aldrei verið jafn mikill áhugi fyrir veiði á Íslandi eins og akkúrat núna,“ segir Kristinn Ingólfsson sem á og rekur einn stærsta umboðssöluvef fyrir veiðileyfi á Íslandi. Sporðaköst leituðu til Kristins til að meta hver staðan er á þessu sviði þegar Covid er svo gott sem að baki.
„Fyrirspurnir og bókanir, bæði í lengri og styttri veiðiferðir, hvort sem er í silung eða lax, hafa aldrei verið meiri hjá mér. Sama gildir um dagstúra sem ferðamenn vilja fara í til að veiða. Áhuginn hefur aldrei verið jafn mikill og fyrir þetta sumar,“
Hann tekur nýliðinn apríl sem dæmi. Þau tíu ár sem hann hefur verið í þessu hefur hann aldrei verið jafn upptekinn í leiðsögn með erlenda ferðamenn og í vor. Hann var sjálfur í ferðum og veiði í tuttugu daga og var líka með aðra leiðsögumenn í vinnu. Að jafnaði fyrri ár hefur apríl verið ávísun á fimm til tíu daga.
„Áhuginn erlendis frá er mjög mikill. Síðustu tvö ár voru mín bestu ár í þessum bransa ef ég horfi á erlenda markaðinn. Það var fyrst og fremst vegna þess að Ísland var eitt af fáum löndum sem var opið yfir sumarið. Þannig að það varð sprenging í þessu í júlí og fram í september. En núna þegar ég horfi á vorveiðina, apríl og maí þá er þetta miklu miklu meira en ég hef séð. Auðvitað er þetta Covid að kenna eða þakka. Það er alveg klárt mál. Svona er staðan eins langt og ég sé fram í október og það er ekkert lát á fyrirspurnum erlendis frá bæði í styttri og lengri ferðir," segir Kristinn þegar við ræðum áhuga erlendis frá.
Hann segir ljóst af samskiptum við á ferðamenn sem hann hefur talað við að ferðaþörfin og þráin er mjög mikil. „Fólk þarf að ferðast og það þarf að fara að veiða. Það þarf að upplifa og haka í boxin að það hafi gert þetta og hitt."
Kristinn segist taka eftir því að lífið og tilveran hafi breyst hjá mörgum eftir heimsfaraldurinn. „Fólk er að setja sjálft sig framar á listann og fólk vill upplifa og njóta í stað þess að fresta og bíða. Margir hafa setið fastir heima í tvö ár og nú er komið að því að lifa og njóta.“
Mörg veiðisvæði eru nú fullbókuð og jafnvel sum hver fyrir löngu síðan. En ef við horfum á íslenska veiðimenn.
„Fyrri hluta ársins var mjög góður og markaðurinn tók vel við sér. Ég er með meiri sölu núna innanlands en síðustu tvö ár. Þá er ég bæði að horfa á silungs– og laxveiðileyfi. Þannig að áhugi fólks er að aukast. Ég tek hins vegar eftir því að síðustu tvær til þrjár vikur þá hefur þetta róast og örlítið slegið til baka. Ég veit ekki hvort má tengja það við almenna umræðu í samfélaginu um kaup og kjör og stöðu fólks. En ég merki þetta síðustu vikurnar.“
Kristinn býst við að þetta glæðist aftur þegar nær líður sumarleyfum fólks. Hann segir hefðbundið að þetta glæðist aftur þegar sól hækkar meira á lofti. Þá gerist það gjarnan að búið er að skipuleggja sumarleyfið fyrir fjölskylduna og þá raðast inn aðrir dagar á dagatalið.
Kristinn segir alveg óhætt að slá því föstu að áhugi á stangveiði almennt sé að aukast. Hvort sem horft er til áhuga erlendis frá eða meðal íslenskra veiðimanna.
Ingimundur Bergsson heldur utan um Veiðikortið og segir hann sölu þar hafa gengið vel. Mikil aukning hefur verið undanfarin ár og sá áhugi virðist viðhaldast. Þó segir hann vel merkjanlegt hversu vel hafi gengið að selja vorveiði hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur. Korpa, Leirvogsá, Varmá og vorveiði í Elliðaánum og víðar hefur selst vel.
„Þegar kemur að Veiðikortinu þá er salan þar mjög verður tengd. Þegar hlýnar og gerir gott veður þá selst vel og svo minna þegar kólnar aftur. Það varð mikil aukning í Covid, þegar fólk gat ekki ferðast til útlanda og mér sýnist sá áhugi halda áfram,“ sagði Ingimundur í samtali við Sporðaköst.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |