Að vinna tvisvar í lottóinu er ótrúlegt

Maros með 98 sentímetra sjóbirtinginn sem hann veiddi í dag …
Maros með 98 sentímetra sjóbirtinginn sem hann veiddi í dag í Vatnamótum. Þvílikur fiskur. Hausinn er gríðarstór og stirtlan er á við góðan girðingastaur. Ljósmynd/MZ

Líkurnar á að veiða sjóbirting yfir 95 sentímetra eru ekki miklar. Sporðaköst höfðu vitneskju um tvo slíka í vor, sem eru staðfestir, þar til í dag að sá þriðji bættist við. Einn 99 sentímetra fiskur er bókaður úr Eldvatni 23. apríl. 98 sentímetra fiskur veiddist í Ásgarði í Skaftá 2. apríl. Þar var að verki Maros Zatko, sem búsettur er fyrir austan og er mikið í leiðsögn á svæðinu og sjálfur ákafur veiðiáhugamaður. Að veiða svona stóran sjóbirting er nánast eins og að vinna í Lottóinu. En það eru ekki margir sem vinna tvisvar í lottó og það með aðeins fjörutíu daga millibili. En það gerði hann Maros.

Nú var hann að veiða í Vatnamótunum ásamt félögum sínum frá Slóveníu. Þeir voru komnir ansi langt út frá bakka að leita að fiski. Einhverja hundrað metra frá bakka giskaði Maros á í samtali við Sporðaköst nú síðdegis. Félagar hans voru búnir að veiða álinn sem Maros ákvað að kasta á. Þeir höfðu fengið nokkra smáa og spræka birtinga. Flugan sem Maros var með undir er fluga sem hann hnýtti sjálfur og hefur hann veitt alveg ótrúlega á hana í birtingi í vor. Hann setti fljótlega í stóran fisk.

Flugan sem hann tók. Hún er ekki flókin en virkilega …
Flugan sem hann tók. Hún er ekki flókin en virkilega þung. Þessi hefur gefið vel í vor í birtingnum, en aðeins farin að láta á sjá. Ljósmynd/MZ


„Ég vissi strax að þetta var mjög stór fiskur. Ég hafði landað 83 sentímetra fiski í gær en þetta var greinilega stærra verkefni. Hann var svo þungur og sterkur að ég var í vandræðum með hann. Það tók mig meira en hálftíma að landa þessum fiski. Þegar ég sá hann vissi ég að hann var í sérflokki. Bara hausinn var það stór að ég hef aldrei séð svona stóran haus á birtingi áður. Félagar mínir komu til mín og hjálpuðu við að mæla hann. Ég er búinn að vera að vonast eftir því að ná meters fiski. það hvarflaði að mér að hann gæti verið svo stór,“ sagði Maros í samtali við Sporðaköst.

Mælingin var nákvæm og þessi tröllslegi hængur reyndist vera 98 sentímetrar. Það er nákvæmlega sama stærð og fiskurinn sem Maros landaði í Ásgarði í Skaftá 2. apríl í vor. „Þessi fiskur var samt einhvern veginn miklu stærri. Stirtlan á honum var svo svakaleg að það vantaði mikið upp á að ég næði utan um hana. Og hausinn maður. Ég hefði komið báðum hnefum upp í hann í einu. Ég hef aldrei séð svona svakalegan haus.“ Maros missir sig í hlátur af einskærri ánægju þegar hann er að lýsa málavöxtum.

Maros með sjóbirtinginn sem hann veiddi í Skaftá 2. apríl …
Maros með sjóbirtinginn sem hann veiddi í Skaftá 2. apríl í vor. Líka 98 sentímetrar. Maros með veiðhúfuna sem væntanlega er lukkugripur. Ljósmynd/MZ

Þú segir að þú hafir sjálfur hnýtt fluguna. Geturðu ekki sent mynd af henni?

„Jú alveg sjálfsagt en hún er bara orðin svo svakalega tætt að það er lítið eftir af henni.“ Sumir strákar hafa alla heppnina söng Rod Stewart svo eftirminnilega. Maros er nákvæmlega að upplifa þetta núna. Hann landaði 101 sentímetra laxi í Eystri–Rangá í fyrrasumar og er svo búinn að landa þessum tveimur líka sleggjum í vor. 

„Úff. Já ég er örugglega að stela heppni frá einhverjum veiðimönnum. En á maður ekki bara að njóta þess þegar veiðigyðjan er að blessa mann? Svo einn daginn er það búið. Samt vonandi ekki strax.“

Maros með höfðingjann úr Eystri-Rangá sem hann veiddi síðasta sumar. …
Maros með höfðingjann úr Eystri-Rangá sem hann veiddi síðasta sumar. Mældist 101 sentímeter. Some guys have all the luck, söng Rod Stewart. Ljósmynd/Kolskeggur

Hann sagðist telja þennan fisk eitthvað yfir tíu kíló og er það varlega áætlað hjá honum. Sjálfur segir Maros að 90 sentímetra sjóbirtingur sé algerlega frábær fiskur. Nái hann 95 sentímetrum er það alger met fiskur og hver einasti sentímeter umfram það er bara ótrúlegt.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert