„Það er alveg ofboðslega mikið líf hérna. Fuglinn á fleygiferð um allt, krían er komin, birkið farið að taka vel við sér og fiskur víða í uppítöku,“ sagði Óskar Örn Arnarson í samtali við Sporðaköst, þegar hann var að hætta veiðum á Lambhaganum í Þingvallavatni um miðjan dag.
„Ég tók bara stutt skrepp eftir að ég var búinn að skutla strákunum í skólann. En þetta er allt komið á fullt. Ég sá flotta bleikju velta sér fyrir framan mig. Ég náði að kasta á hana Peacock með kúlu og strippaði rólega. Hún nelgdi þetta og þvílíkt flott bleikja. Spikfeit og eitthvað á milli 50 og 55 sentímetrar. Gríðarvel haldin og verður skellt í reyk. Ég var ekki með málband á mér en er með 70 sentímetra merki á stönginni og því held ég að þetta sé nærri lagi.“
Þetta er fyrsta vatnaveiðin hjá Óskari í ár, en hann segist búinn að vera mjög duglegur í sjóbirtingnum og þá fyrst og fremst í Leirvogsá.
Og hvernig hefur gengið þar?
„Bara fáránlega vel, allavega hjá mér. Ég bý þarna skammt frá og hef verið nánast daglegur gestur,“ hlær hann.
Hvað af því sem þú hefur verið að nota hefur gefið best?
„Það er baraSquirmyWormy. Hún er ótrúlega mögnuð í birtingnum. Ég skal alveg viðurkenna að ég á í ástar-haturssambandi við þessa flugu en hún virkar rosalega vel. Svo hafði ég gaman af því að dóttir mín, Lóa Kristín sem er tólf ára, landaði mjög flottum birtingi sem mældist 73 sentímetrar.“
Mjög líflegt er í Elliðavatni og Vífilsstaðavatni og helst að vel gefi á morgnana en samt er veiði allan daginn ef menn standa við. Daníel Karl Egilsson var í Elliðavatni í dag og landaði á stuttum tíma þremur boltableikjum sem allar tóku Pheasant Tail númer sextán. „Ég var með Buzzer númer fjórtán sem efri fluguna en þær tók allar Pheasant Tail sem var neðri flugan,“ sagði Daníel Karl í samtali við Sporðaköst.
Hann var ekki lengi við, stoppaði í um tvo tíma og telst þetta vel ferðarinnar virði. Nú erum við að nálgast skemmtilegasta tímann í vatnaveiðinni og gaman væri að fá myndir og línu frá lesendum af skemmtilegri veiði. Netfangið er eggertskula@mbl.is.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |