Veiðin á opnunarvaktinni í Laxá í Mývatnssveit verður skráð í sögubækur. Árni Friðleifsson lögregluforingi veiddi Arnarvatnslandið í morgun og komu á land 25 fiskar þar á tvær stangir. „Við erum búnir að vera að telja þetta saman í hléinu og þetta er eitthvað um 150 fiskar, sem meira en ég hef séð hér áður á fyrstu vakt. Mér segja líka reyndari menn sem eru hér að þetta hafi ekki byrjað af svona miklum krafti í þeirra tíð.“
Eins og oft áður var veiðin mest í Skurðinum í Geirastaðalandi. Árni telur að þeir sem hafi verið þar hafi landað um sextíu fiskum á vaktinni. „Skurðurinn er bara pakkaður af fiski. Og þetta er virkilega vel haldinn og flottur fiskur,“ upplýsti Árni.
Það var helst að neðsta svæðið, Hamar væri rólegt. Miklir reynsluboltar veiddu Brettingsstaði og lentu þeir í veislu eins og svo margir í morgun. „Þeir hættu bara þegar þeir voru komnir með einhverja tólf og fóru bara á rúntinn að kíkja á mannskapinn.“
Það er auðvelt að verða saddur í veiðiskapnum þegar svona vel gengur. Árni nefndir fleiri veiðistaði sem gáfu vel í morgun. Hrófið var gott og svo var veisla í Goggavík.
„Veðrið hérna er náttúrulega bara draumur. Ekki ský á himni, tuttugu gráður og hægur vindur. Í fyrra vorum við Jóhann félagi minn í norðanbáli og við fundum ekki nóg af fötum til að troða okkur í. Nú er stuttermabolurinn jafnvel aðeins of mikið,“ hló Árni.
Þeir félagar voru að taka mest af þeim fiskum sem þeir fengu á hefðbundnar púpur eins og Pheasant Tail og sambærilegar. „Jonni fékk líka nokkra á Sunray. Einn æðislega flottan uppi í Steinsrassi. Þannig að það er ýmislegt að virka,“ sagði Árni.
Gaman verður að heyra heildartöluna úr hollinu þegar þessir kappar hætta á miðvikudag. Þá hafa borist fréttir af skemmtilegri veiði á Torfunum og sömuleiðis er þar um að ræða flotta og vel haldna fiska.
Fjölmargir birtu fallegar útskriftarmyndir af afkvæmum og barnabörnum í gær sem voru að ná merkilegum áföngum. Í dag eru það hins vegar myndir af bleikjum og urriðum úr hinum ýmsu áttum. Elliðavatn var gefa, Úlfljótsvatn, Ásgarður í Sogi, Eldvatn og Urriðavatn svo einhver svæði séu nefnd. Það er ljóst að þetta sumarveður á landinu er kalla fram það besta í veiðimönnum og fiskum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |