Það vakti bæði undrun og ánægju hjá veiðimönnum við Urriðafoss í Þjórsá í morgun að þrír af fjórum fyrstu löxunum sem veiddust voru hængar. Sá fimmti sem slapp var líka hængur. „Þetta er ánægjulegt og jafnframt spennandi,“ sagði Stefán Sigurðsson, leigutaki og handhafi fyrsta lax sumarsins 2022 í morgun. „Þetta hefur verið öfugt. Við höfum verið að fá hrygnur og einstaka hæng, svona í byrjun. Nú er búið að landa fimmtán löxum á fyrri vaktinni og hængar eru í miklum meirihluta. Þrír af hverjum fjórum fiskum eru hængar. Fyrsti lax sumarsins var reyndar hrygna en svo tóku hængarnir við. Ég held að þetta geti þýtt að laxinn er að mæta í fyrra fallinu og kannski og vonandi er þetta vísbending um að meira sé af honum,“ sagði Stefán hugsi.
Aðrir veiðimenn, hoknir af reynslu eins og þeir Haukur og Hrafn tóku undir þetta og sjá mátti eftirvæntingarglampa í augunum á þeim.
Stærsti hængurinn mældist 86 sentímetrar en hinir fiskarnir voru á bilinu 80 - 82 sentímetrar. Dæmigerður vel haldinn vorlax.
Það voru leigutakar sem opnuðu Urriðafossinn á þessum fyrsta degi laxveiðinnar í sumar. Með í för voru þeir veiðifeðgar Haukur og Hrafn og Louise frá Englandi. Hún virtist óörugg til að byrja með og fljótlega kom í ljós að hún hafði aldrei veitt á maðk og hafði hugsað mikið um þann verknað nóttina fyrir veiðina og ekki sofið mikið. Hún losnaði reyndar við að beita og var þá orðin hin kátasta. „Það er ótrúlegt að sjá þetta mikla og magnaða fljót,“ sagði Louise. Stuttu síðar landaði hún fallegum stórlaxi og ferðin hennar var fullkomnuð.
Einn af stóru hængunum var lúsugur og mátti sjá á honum halalús þannig að sá var bara að mæta úr hafi.
Þjórsá var vatnsmikil og kröftug á að líta. Örlítið grænleit í bland við jökullitinn og þykja þetta góð skilyrði.
Haraldur Einarsson bóndi að Urriðafossi var mættur eins og margir aðrir á þessum merkisdegi. Fyrstu tveir laxarnir voru ekki með lús. Haraldur sagði það ekki óvanalegt í Þjórsá. „Við erum bara af og til að fá lúsuga laxa á vorin. Það er frekar undantekningin heldur en hitt.“
Þegar veiðimenn tóku sér hlé til safna kröftum og næra sig voru komnir á land 15 laxar og mikil ánægja var með þennan fyrsta dag. Og eins og Stefán Sigurðsson orðaði það. „Heldur betur frábær byrjun.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |