Fyrsti laxinn í Norðurá veiddist á Stokkhylsbrotinu klukkan 8:24 í morgun. Fyrsti veiðidagur í Norðurá hófst einmitt í morgun klukkan átta. Það var Dagur Elí Svendsen sem fékk fyrsta laxinn á rauðan Frances kón. Mældist hann 74 sentímetrar. Fyrsti laxinn í fyrra kom einmitt á sama stað og sömu flugu og þá var að verki pabbi Dags, Ingvar Svendsen.
Kjörvatn er í Norðurá og hafa fiskar verið að sjást síðustu daga. Fyrst sáust laxar á Stokkhylsbrotinu og svo nokkrum dögum síðar einnig á Brotinu skammt neðan við Laxfoss. Áin er opnuð á átta stöngum og ólíkt því sem verið hefur undanfarin ár er ekki um að ræða sérstakan fjölmiðlaviðburð með heiðursgesti. Nú var opnunin seld til veiðimanna eins og tíðkast í flestum ám.
Norðurá hefur verið í nokkurri lægð undanfarin þrjú ár eins og margar laxveiðiár á Íslandi. Þurrkasumarið mikla, 2019 skilaði hún ekki nema 577 löxum. Árið eftir fór hún í 980 laxa og síðastliðið sumar endaði hún í 1.431 laxi. Þetta hefur verið aðeins upp á við frá 2019 en nú eru teikn á lofti að batinn geti haldið áfram. Til að hægt sé að tala um gott sumar í Norðurá þarf hún að skila í kringum tvö þúsund laxa.
Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun hefur sagt að ágæt útganga hafi verið á seiðum í fyrra sem eiga að skila sér sem smálax í sumar. Þá hefur ástand sjávar úti fyrir Suður og Vesturlandi verið áhyggjuefni. Sjórinn hefur verið kaldur og seltulítill. Nú hefur það ástand heldur lagast þannig að skilyrði fyrir laxinn ættu að vera betri. En mörgum spurningum er ósvarað áður en hægt verður að fullyrða að þessi staða sé að skila bata.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |